Ferskir vindar tilnefndir til Menningarverðlauna DV
Listahátíðin Ferskir vindar er tilnefnd til Menningarverðlauna DV í flokknum myndlist. Netkosning stendur yfir á vef DV til miðnættis 9. mars. Sú tilnefning sem hlýtur flest atkvæði hreppir lesendaverðlaun dv.is. Ferskir vindar eru alþjóðleg listahátíð sem haldin er annað hvert ár í Garði og stendur í fimm vikur yfir vetrartímann.
Í umsögn dómnefndar Menningarverðlauna DV segir um Ferska vinda:
Listahátíðin Ferskir vindar var haldin í fjórða sinn í Garði á Reykjanesi en henni stýrir Mireyja Samper. Fimmtíu listamenn frá ýmsum löndum stóðu fyrir fimm vikna dagskrá með sýningum, viðburðum, tónlist, fræðslu og gjörningum. Mireyja var upphafsmaður þessa verkefnis en hún hefur ferðast víða um heim þar sem hún hefur unnið að sinni eigin myndlist og sýnt, en síðan nýtt tengslanet sitt til að kynna hátíðina í Garði og laða þangað áhugaverða listamenn. Hátíðin sannar að það þarf ekki endilega stórt bæjarfélag til að hýsa svona viðburði og á Ferskum vindum vinna listamenn með þátttöku heimamanna, ekki síst skólanema, svo dagskráin virkjar umhverfi sitt betur en yfirleitt tekst á slíkum viðburðum.