Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

  • Ferskir vindar setja svip á Garðinn
    Fjölmennt var við opnun sýninga Ferskra vinda um síðustu helgi.
  • Ferskir vindar setja svip á Garðinn
Laugardagur 16. janúar 2016 kl. 07:00

Ferskir vindar setja svip á Garðinn

- 50 listamenn frá öllum heimshornum skapa listaverk í Garðinum

Listaverkefnið Ferskir vindar stendur nú sem hæst í Garðinum. Sem fyrr er listrænn stjórnandi og umsjónarmaður verkefnisins Mireya Samper. Hópur sem telur um 50 listamenn frá öllum heimshornum hafa haldið til í Garðinum síðustu vikur og unnið að listsköpun. Listsýningar voru svo opnaðar í Garðinum um síðustu helgi og um komandi helgi verða sýningar víða um Garðinn. Það var Illugi Gunnarsson, mennta- og menningarmálaráðherra, sem opnaði sýningarnar en einnig voru sendiherrar Frakklands og Japan sérstakir gestir við opnunarhátíðina.

Þetta er í fjórða skiptið sem Ferskir vindar eru haldnir í Garðinum. Verkefnið var fyrst haldið áramótin 2010-2011 og hefur verið haldið annað hvert ár síðan. Árið 2012 var hópurinn í Garðinum í maí og júní en öll hin skiptin hafa listamennirnir verið yfir áramót.

Markmið listahátíðarinnar Ferskra vinda er að skapa lifandi umhverfi sem allir njóta góðs af, með nýstárlegum listaverkum og uppákomum.  Einnig að mynda tengslanet milli innlendra og erlendra listamanna og efla um leið íslenska myndlist og fjölbreytileika menningarviðburða á Íslandi. Þá er það markmið að hátíðin gegni mikilvægu hlutverki við að auka komu ferðafólks á svæðið, færa listina til fólksins og auðga andann.

Mörg verk prýða Garðinn í dag eftir fyrri skipti Ferskra vinda og eru í eigu Garðs. Einhverjir erlendir listamenn sem hér hafa verið, hafa nýtt sér myndir og annað á sýningar sínar erlendis.

Listaverkefnið er nú orðið nokkuð þekkt og er eitt af stærri verkefnum tengt listum sem sveitarfélag á Íslandi kemur að, en nokkuð er fjallað um verkefnið bæði hér heima og erlendis.

Meðfylgjandi myndir voru teknar við opnun sýninga um síðustu helgi.



Listaverk eru m.a. til sýnis í sýningarrými við bæjarskrifstofurnar í Garði.



VF-myndir: Hilmar Bragi

 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024