Ferskir vindar í úrslitum Eyrarrósarinnar
Alþjóðlega listahátíðin Ferskir vindar sem haldin er annað hvert ár í Garði er meðal þriggja verkefna sem keppa um Eyrarrósina í ár. Fyrr á árinu var tilkynnt um tíu verkefni sem tilnefnd voru en eftir val dómnefndar standa þrjú verkefni nú eftir. Auk Ferskra vinda eru það Menningar- og fræðslusetrið Eldheimar í Vestmannaeyjum og Verksmiðjan á Hjalteyri sem keppa um Eyrarrósina í ár.
Tilkynnt verður 18. febrúar næstkomandi hvert þeirra hlýtur Eyrarrósina 2016. Öll þrjú verkefnin hljóta peningaverðlaun og flugmiða frá Flugfélagi Íslands. Dorrit Moussaieff er verndari Eyrarrósarinnar og mun hún afhenda verðlaunahafanum 1.650.000 krónur við hátíðlega athöfn í Frystiklefanum á Rifi.
Eyrarrósin er veitt framúrskarandi menningarverkefni á starfssvæði Byggðastofnunar. Hún hefur verið veitt frá árinu 2005 og er ætlað að beina sjónum að og hvetja til menningarlegrar fjölbreytni, nýsköpunar og uppbyggingar á sviði menningar. Að Eyrarrósinni standa Byggðastofnun, Listahátíð í Reykjavík og Flugfélag Íslands.