Ferskir vindar í Garðinum
Verkefnið Ferskir vindar er alþjóðlegt menningarverkefni þar sem fjölda fólks úr öllum listgreinum er boðið að koma til Íslands til að kynnast landi og þjóð, verða fyrir áhrifum af náttúrunni og samfélaginu og skilja eftir sig spor í formi listsköpunar.
Ferskir vindar er haldið núna í annað sinn og stendur yfir frá 20. maí til 30. júní 2012. Það var haldið í fyrsta sinn í desember 2010 til janúar 2011 og m arkmiðið er að halda Ferska vinda annað hvert ár.
Listamennirnir í ár eru 46 og frá 16 þjóðum, þar á meðal Íslandi. Listafólkið dvelur í Garði og vinnur að list sinni og stendur fyrir allskonar uppákomum, sbr. kynningum á list sinni, tónlistar- og kvikmyndaviðburðum, gjörningum, málþingum og fleira. Allir viðburðir eru opnir almenningi og allir eru velkomnir.
Þema Ferskra vinda sumarið 2012 er bjartar nætur og vinna 11 listamenn í nýja grjóthleðslu sem er verið að hlaða fyrir nýtt listaverkatjaldstæði sem Stanislas Bohic landslagsarkitekt hannaði sem þátttakandi í Ferskum vindum. Þetta tjaldstæði verður eina sinnar tegundar á landinu og á vonandi eftir að draga margan ferðamanninn að til að upplifa og njóta listarinnar í fallegri náttúru Íslands. Listamennirnir gefa alla vinnu sína og Sveitarfélagið Garður sem er bakhjarl verkefnisins og styður það, eignast verkin. Þannig verður smám saman til mikið og gott listaverkasafn listamanna sem koma til landsins með sinn eigin menningarlega bakgrunn og vinna hugmyndir sínar í íslenskt náttúrulegt efni. Verk þeirra eru því einstök í sögu þeirra sjálfra þar sem þeir eru oftast að fást við nýtt efni og verkin verða til undir áhrifum miðnætursólarinnar og umhverfis sem er mikil upplifun fyrir fólk sem ekki hefur áður komið til landsins.
Flestir listamennirnir í verkefninu eru mjög reyndir og margir vel þekktir á sínum heimaslóðum en einnig er reynt að bjóða reynsluminni listamönnum sem eru að stíga sín fyrstu skref inn í listaheiminn til að læra af sér reyndara fólki. Mörg fyrirtæki styrkja verkefnið með grunnefnum á borð við pappír, kol og slíkt, en aðallega notast listamennirnir við efni sem er að finna í nátttúrunni sem er grjót og rekaviður.
Frá 20, maí til 11. júní voru listamennirnir með kynningar á sjálfum sér og verkum sínum. Formleg opnun sýninganna er 16. júní sem fara fram víða í Garði, bæði innahúss og utanhúss. Myndlistasýningarnar standa yfir frá 16. júní til 1. júlí 2012. Eftir það er hægt að skoða útilistaverkin sem eru orðin rúmlega 20. Það verða leiðsagnir um sýningarnar sem eru víða um Garð 16., 17., 23. og 24. júní, auk þess sem verða gjörningar, tónlistaviðburðir, tónleikar og fleira.