Ferskir vindar í Garði alla helgina
Lista- og menningarveislan „Ferskir vindar í Garði“ heldur áfram af krafti um helgina, en hátíðin var sett formlega í síðustu viku með opnun sýninga og viðburða víðsvegar um Garðinn. Um komandi helgi verður dagskrá bæði laugardag og sunnudag þar sem Suðurnesjafólki er boðið í rútuferð um Garðinn þar sem farið er á milli listviðburða.
Á laugardag hefst dagskráin við bæjarskrifstofurnar að Sunnubraut 4 kl. 13:00 með opnun myndlistarsýningar. Kl. 13:30 fer rúta frá Sunnubraut 4 og útilistaverk eru skoðuð með leiðsögn og farið á sýningar í vitunum á Garðskaga. Kl. 15:30 mun Fasbrice Bony frá Frakklandi flytja nýtt tónverk á hljóðfæri sem hann hefur hannað og smíðað sjálfur.
Á sunnudag er sama dagskrá ásamt tónleikum í Útskálakirkju kl. 15:30. Flutt verður nýtt verk eftir Atla Ingólfsson sem söngsveitin Víkingar tekur þátt í ásamt fleirum. Hilmar Örn Hilmarsson, Páll á Húsafelli og Frank Aarnink flytja tónverk samið til heiðurs Unu í Sjólist. Áki Ásgeirsson frá Garði flytur tónverk. Þegar dagskrá í kirkjunni lýkur kl. 16:30 heldur áfram skoðunarferð milli útilistaverka og myndlistarsýninga. Allir eru velkomnir og er enginn aðgangseyrir né gjald í rútuna.
Myndir: Hilmar Bragi