Ferskir vindar á Garðvangi
- 50 erlendir listamenn setjast að í Garðinum í fimm vikur
Listaverkefnið Ferskir vindar er nú að fara af stað í fjórða skiptið í Garðinum. Sem fyrr er listrænn stjórnandi og umsjónarmaður verkefnisins Mireya Samper. Fyrstu listamennirnir eru mættir í Garðinn en hópurinn, sem telur yfir 50 listamenn frá öllum heimshornum, mun halda til á Garðvangi þetta skiptið. Frá þessu er greint á vef Sveitarfélagsins Garðs.
Listaverkefnið Ferskir vindar í Garði var fyrst haldið áramótin 2010 - 2011 og hefur verið haldið annað hvert ár síðan. Árið 2012 var hópurinn hér í Garðinum í maí og júní en öll hin skiptin hafa listamennirnir verið hér yfir áramót.
Verkefnið snýst um það að 50 listamenn frá öllum heimshornum koma í Garðinn, búa þarr og vinna að sinni list í um 5 vikur.
Mörg verk prýða Garðinn í dag eftir fyrri skipti Ferskra vinda og eru í eigu Garðs. Einhverjir erlendir listamenn sem hér hafa verið, hafa nýtt sér myndir og annað á sýningar sínar erlendis.
Allt áhugafólk um sköpun og listir er hvatt til að koma í Garðinn og kíkja inn á vinnustofur listamanna, fylgjast með þeim við sína vinnu og fá sér kaffi og ræða málin. Sýningar verða svo opnaðar laugardaginn 9. janúar 2016, kl. 14:00 á efri hæð að Sunnubraut 4.
Listaverkefnið er nú orðið nokkuð þekkt og er eitt af stærri verkefnum tengt listum sem sveitarfélag á Íslandi kemur að, en nokkuð er fjallað um verkefnið bæði hér heima og erlendis.