Fermir son sinn og afason á sama tíma
Var ekki orðinn sextán ára þegar hann fjölgaði mannkyninu
„Frábært að geta haldið sameiginlega veislu fyrir son minn og afason,“ segir Sveinn Ari Guðjónsson en líklega eru ekki margir í hans sporum þetta fermingarárið, hann er bæði að ferma son sinn og afason og verður sameiginleg veisla haldin þar sem tónlist mun ráða ríkjum.
Sveinn Ari er fæddur árið 1968, alinn upp á Breiðdalsvík og fermdist þar árið 1982. Eins og tíðkaðist þá, gátu börnin ekki klárað níunda bekkinn heima hjá sér, sem þá var síðasti bekkur í grunnskóla, þau þurftu að fara í Alþýðuskólann á Eiðum og þar voru fyrstu tvö árin í menntaskóla líka tekin. Svenni sem var byrjaður að læra á hljóðfæri, fann sig strax á heimavistinni á Eiðum og var kominn á kaf í tónlistarlífið og því fylgdi greinilega kvensemi, hann var orðinn pabbi áður en hann gat fagnað sextán ára afmælinu.
„Það bjuggu um fjögur hundruð manns í Breiðdalsvík og í sveitunum í kring á þessum tíma. Skólinn minn var inni í miðjum dal og þangað fór maður á hverjum morgni með skólabílnum. Ég man vel eftir fermingunni en eftir á að hyggja átti ég ekkert að fermast, ég er og hef alltaf verið trúleysingi en þetta var bara hefð, það fermdust allir. Veislan var haldin heima, eftirminnilegasta gjöfin var líklega gjöfin sem ég var alls ekki ánægður með, ég fékk skemmtara frá foreldrum mínum. Ég var byrjaður að læra á hljóðfæri og fannst þessi skemmtari agalega hallærislegur, ég hefði frekar viljað gítar eða bassa sem varð svo mitt hljóðfæri og er enn. Ég komst svo á kaf í tónlistarlífið á Eiðum og náði mér vel á strik, við vorum mikið að spila og oft var ansi mikið stuð. Einhvern tíma lenti ég á séns og viðurkenni að hafa brugðið aðeins við þegar mér var tilkynnt að ég væri að verða pabbi. Ég æfði líka fótbolta á þessum tíma, var að spila með meistaraflokki Breiðdalsvíkur, liðið hét Hrafnkell Freysgoði og var spilað við öll liðin á austfjörðunum og var alltaf mikill rígur á milli þessara liða. Ég fékk oft pílur inn á völlinn, þar sem ég var kallaður litli pabbi og eitthvað slíkt, ég er og var ekki stór maður á velli, þetta þótti nokkuð sérstakt, að þessi fimmtán ára gutti væri að verða pabbi. Máney mín fæddist svo árið 1984, rétt áður en ég varð sextán ára. Ég verð víst að viðurkenna að ég var ekki heimsins besti pabbi á þessum fyrstu árum en í dag á ég æðislegt samband við frumburðinn minn og hlakka mikið til þegar við fermum saman, ég að ferma Fjölni minn og bróður hennar, og hún að ferma son sinn og afadrenginn minn, hann Jóhann Fannar.“
Blaut tuska í andlit móðurinnar
Svenni kynntist eiginkonu sinni, Sólnýju Pálsdóttur, í Menntaskólanum á Egilsstöðum árið 1989. Þau mættu prúðbúin í fermingu Máneyjar þegar hún var fermd á Siglufirði árið 1998. Þá var frumburður þeirra, Guðjón, fæddur. Sólný var alin upp við trú, var og er mjög samviskusöm við að fara með bænirnar fyrir börnin sín, því voru það henni mikil vonbrigði þegar kom að fermingu Guðjóns.
„Ég leyfði Sólnýju að fara sína leið varðandi að kynna trúna fyrir drengjunum okkar, þó svo að ég væri ekki á þeirri línu. Það voru henni því ansi mikil vonbrigði þegar Guðjón sem er fæddur árið 1995, tilkynnti mömmu sinni að hann hefði enga trú og ætlaði sér ekki að fermast á hinn hefðbundna máta. Sólný reyndi allt sem hún gat, pantaði einkaviðtal fyrir drenginn hjá sr. Elínborgu en allt kom fyrir ekki, hann varð staðfastari í ákvörðun sinni og fermdist því borgaralega hjá Siðmennt og til að bæta gráu ofan á svart, gekk Sighvatur bróðir hans skrefinu lengra. Hann fór reyndar með í ferðina í Vatnaskóg sem grindvísk fermingarbörn fara í en hann kom til baka með svo krefjandi spurningar sem Sólný átti engin svör við og hann tók ákvörðun um að fermast ekki, vildi enga veislu eða neitt. Þegar kom að þriðja drengnum, Pálmari og þar fer greinilega business-maður, vildi hann svo sannarlega fá allan pakkann og ég gleymi ekki ánægju Sólnýjar þegar hún spásseraði inn kirkjugólfið þegar fermingardaginn bar upp, hún var held ég hamingjusamari þá en á brúðkaupsdaginn okkar,“ segir Svenni.
Sameiginleg veisla sonar og afasonar
Þarna var Sólný greinilega komin á beinu brautina, fjórði drengurinn hann Fjölnir mun krjúpa við altarið 7. apríl og veislan verður með nokkuð sérstöku sniði má segja, hann mun halda hana með Jóhanni frænda sínum.
„Það verður líf og fjör í þessari veislu, það er mikil tónlist í fjölskyldunni og mun verða stillt upp hljóðkerfi og tónlist mun stýra för í veislunni. Jóhann Fannar er mjög efnilegur tónlistarmaður, hefur nú þegar samið nokkur lög og þau verða flutt í veislunni. Það verður ekki vandamál að manna hljómsveitina, ég verð væntanlega á bassanum, Guðjón og Sighvatur eru báðir hörku gítarleikarar en bæði Pálmar og Fjölnir hafa látið tónlistargyðjuna vera, þeir hafa frekar einbeitt sér að fótboltanum Ég geri því ekki ráð fyrir að Fjölnir muni stíga á stokk í veislunni, tja ekki nema hann sýni knattleikni og við eigum eftir að manna trommusettið, hugsanlega mun sá yngsti, Hilmir vera með kjuðana. Jóhann Fannar er ekki fyrsta afabarnið sem ég fermi, Steinunn systir hans er tvítug svo það má kannski segja að ég sé orðinn hokinn af reynslu þegar kemur að fermingum, trúleysinginn ég. Ég hlakka mikið til þessarar veislu, sérdeilis frábært að geta haldið sameiginlega veislu fyrir drenginn minn og afastrákinn,“ sagði stoltur faðirinn og afinn að lokum.