Fermingarnámskeiðin í Vatnaskógi hafa verið hápunkturinn hjá mörgum
Í ár eru yfir 40 börn sem fermast í Útskálaprestakalli hjá séra Sigurði Grétari Sigurðssyni. Fermt verður í Útskálakirkju og Sandgerðiskirkju þann 24. apríl og í Hvalsneskirkju og Útskálakirkju þann 8. maí en yfirleitt er fermt á fyrsta og þriðja sunnudegi eftir páska í prestakallinu. Sjö til tólf börn verða fermd í hverri athöfn.
Í ár má segja að fermingar verði með venjulegu sniði en fermt var í skugga kórónuveirufaraldurs á síðustu tvö ár. Fermingarfræðslan í vetur gekk vel og segir séra Sigurður Grétar að hann hafi tekið mikið af fræðslunni snemma síðasta haust, m.a. fræðsla í Vatnaskógi. Þegar veirufaraldurinn lagðist sem þyngst á samfélagið hafi það ekki komið mikið að sök.
Í Vatnaskógi eru fermingarnámskeið og þau sækja börn allt austan úr Skaftafellssýslum, vestur um firði og norður í Ólafsfjörð en um 2.500 fermingarbörn sækja námskeið í Vatnaskóg. „Við í Útskálaprestakalli og Grindavík höfum farið saman og verið á fimm daga námskeiði, margir hópar eru á þriggja daga námskeiði og svo er þetta allt niður í einn dag. Þarna fer saman fræðsla, helgihald, upplifun, leikur, samfélag, tengslamyndun, söngur og ótrúlega margir þættir sem koma saman þar. Eftir því sem námskeiðið er lengra fæst meira útúr félagslegum þáttum,“ segir Sigurður Grétar. „Fermingarnámskeiðin í Vatnaskógi hafa verið hápunkturinn hjá mörgum fermingarbörnum.“
Sigurður Grétar segir fermingarfræðsluna hafa verið á svipuðum nótum hjá sér í langan tíma og margt sem hafi gefist vel. Langt og gott fermingarnámskeið í Vatnaskógi og hitta þau svo reglulega heima í söfnuðinum og taka vikulegar samverur í lotum þar sem blandað er saman fræðslu, söng og helgihaldi. Sigurður Grétar leikur á hljóðfæri og hann notar það óspart og sungið er í öllum fermingarfræðslutímunum. „Þetta eru yndislegir krakkar og gaman að vera með þeim. Þau eru jákvæð og skemmtileg,“ segir séra Sigurður Grétar Sigurðsson að endingu.