Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Fermingarhefðin nær allt til tólftu aldar
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
sunnudaginn 2. apríl 2023 kl. 06:44

Fermingarhefðin nær allt til tólftu aldar

Um hvað snýst fermingin? Fjölbreytt fræðsla.

„Skírnin er fyrst og síðast innganga í kristinn söfnuð. Það að ferma börn nær allt aftur til tólftu aldarinnar þegar kaþólska kirkjan tók upp ferminguna sem staðfestingu á skírninni,“ segir sr. Elínborg Gísladóttir, sóknarprestur í Grindavík.

Elínborg man vel eftir sinni fermingu en hún ólst upp í sveitinni. Hún var orðin þrítug þegar guðfræðin togaði í hana og eftir að hafa þjónað á Ólafsfirði og leyst af á höfuðborgarsvæðinu, tók hún við prestakallinu í Grindavík og hefur verið síðan 2006.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Gömul hefð

„Ferming er staðfesting á skírninni en skírnin er innganga inn í kristið samfélag og í þessu samhengi hér, inn í evangelíska lúterska kirkju sem Þjóðkirkjan er. Í raun er það séríslensk hefð að gefa barni nafn á sama tíma og það er skírt. Guðbrandur Þorláksson, Hólabiskup beitti sér fyrir því að ferming yrði tekin upp í Hólabiskupsdæmi, fyrst árið 1596. Hin lútherska ferming var lögfest hér árið 1741 um leið og  fermingin var lögfest um gjörvallt danska ríkið en Ísland var undir Danaveldi á þessum tíma.

Heimildir herma að fermingaraldurinn hafi verið um níu til tólf ára aldurinn hjá  kaþólsku kirkjunni en innan lútersku kirkjunnar hefur verið miðað við að barnið sé á fjórtánda ári. Ég hef verið spurð að því hvort ég teldi gáfulegra að miða þessa stóru ákvörðun í lífi hvers barns, við átján ára aldurinn en þá öðlast viðkomandi sjálfræði. Ég held að mjög erfitt yrði að snúa því við þó svo að það væri áhugavert að ræða við þau um undirstöðu kristinnar trúar á átjánda árinu. Ég tel líka að þegar barn er á fjórtánda ári, að það sé góður aldur, það var aldurinn hér áður fyrr sem viðkomandi var tekinn í fullorðins manna tölu. Barnið er á tímamótum, er að breytast í ungling og er orðið meðvitaðra um lífið. Á þessum tímapunkti eru foreldrarnir sömuleiðis búnir að ræða þessi mál við sitt barn, sum börn tilheyra öðrum trúar- og lífskoðunarfélögum en Þjóðkirkjunni og fermast þá þar.“

Fjölbreytt fermingarfræðsla

Fermingarundirbúningurinn byrjar alltaf í upphafi skólaárs.

„Eitt það fyrsta sem við gerum er að fara í fimm daga ferðalag í Vatnaskóg, í lok ágúst. Þar fer m.a. fram fræðsla, leikur, söngur og gleði. Svo mæta börnin einu sinni í viku á skólaárinu í fermingarfræðslu fram að fermingu. Fræðslan snýst um grunngildi kristinnar trúar, að kynnast Biblíunni og kunna að fletta upp í henni. Að sjálfsögðu er farið yfir trúarjátninguna sem er játning kristinna manna í heiminum, hún verður til sem skírnarjátning á þriðju öld. Börnin læra að biðja, læra bænir og læra hvað felst í því að vera kristin manneskja. Gullna reglan segir reyndar margt um það; „Allt sem þér viljið að aðrir menn gjöri yður það skuluð þér og þeim gjöra“ en mjög margt í trúararfinum snertir mannlegt líf, burtséð frá því hversu trúaður viðkomandi telur sig vera. Bara þetta samfélag að koma saman, biðja saman, syngja saman, gleðjast saman og syrgja saman. Eitt af grunngildum trúarinnar er að rækta með sér kærleika til alls fólks. Börnum er kennt um jafnrétti, að allir eigi að hafa sömu réttindi, lýðræðið er fyrir alla, burtséð frá kyni eða kynþætti.

Námsefnið tekur alltaf ákveðnum breytingum ár frá ári en í grunninn er alltaf verið að styðjast við það sama. Námsefnið er kannski sett í það form sem hentar betur m.v. tíðarandann en það sem ég hef tekið eftir á undanförnum árum, að lestrarkunnáttu barnanna almennt hefur hrakað. Þetta er í takti við þær rannsóknir sem við höfum heyrt um varðandi lestrarkunnáttu barna, að skilningur þeirra á íslenskri tungu er ekki eins og áður. Mín reynsla í fræðslunni er sú að þau hafa gaman af að láta segja sér  biblíusögur, ekki lesa þær fyrir þau. Ég nota kraftaverkasögur Jesús Krists, þær eru líka skemmtilegar og vekja athygli barnanna. Ég bið þau um að tengja sögurnar við hið daglega líf okkar hér og nú, hvað eru þær að segja okkur í nútímanum og það skapast of áhugaverðar pælingar um kraftaverkin. Ég fylgi námskrá þjóðkirkjunnar en ræð nokkuð sjálf framsetningunni á efninu,“ segir sr. Elínborg.

Fermingarveislan á sveitabænum

Sr. Elínborg er fædd árið 1959 og ólst upp á sveitabænum Kýrholti sem er nálægt Hólum í Hjaltadal í Skagafirði. Það voru tveir biskupsstólar á Íslandi, í Skálholti og að Hólum í Hjaltadal en fyrrnefndur Guðbrandur Þorláksson (1542–1627) ríkti þar.

„Ég fermdist í Hólakirkju og þykir afskaplega vænt um það, þetta var kirkjan sem tilheyrði minni sveit en fyrir þá sem ekki vita þá er u.þ.b. þrjátíu kílómetrar frá Hólum í Hjaltadal inn á Sauðárkrók. Ég man vel eftir þessum degi, það var yndislegt veður. Þetta var á Hvítasunnunni og við vorum sex börn sem fermdust, presturinn hét Björn Björnsson. Veislan var haldin heima, mamma og systir mín bökuðu, í minningunni voru þrjátíu til fjörutíu gestir, mest skyldmenni og vinir úr sveitinni. Eftirminnilegasta gjöfin var armbandsúr sem var vinsælt að gefa á þessum tíma, ég fékk líka skartgripi og fékk óvenju mikla peninga en það voru sjaldgæfar gjafir á þessum tíma.“

Þrítug í guðfræði

Ég var orðin þrjátíu og tveggja ára þegar ég skráði mig í guðfræði. Ég hafði menntað mig sem lyfjatæknir og vann í apóteki en fann svo að ég vildi breyta til. Ég hafði mikinn áhuga á bókmenntum, var búin að skrá mig í íslensku og hóf nám þar en þarna var guðfræðin farin að toga í mig. Kennsla í henni byrjaði viku seinna og ég sótti um að færa mig yfir í guðfræði og komst inn. Ég útskrifaðist árið 1997 en í upphafi náms míns hafði ég ekki í huga að gerast prestur en hægt og rólega óx það innra með mér, að gerast prestur. Eftir útskriftina fór ég að vinna hjá SÁÁ og gerðist áfengis og vímuefnaráðgjafi. Árið 2001 vígðist ég hins vegar til prestsembættis  á Ólafsfirði. Ég var þar í þrjú ár, leysti þá af í Reykjavík, kem síðan til  Grindavíkur árið 2006 og hef verið sóknarprestur í Grindavík síðan. Mér líður vel hér í Grindavík, það er gott að búa hér,“ sagði sr. Elínborg að lokum.