Stækkaði tvisvar upp úr nýju fermingarfötunum
Fermingar á Suðurnesjum í lok ágúst og fram til loka september
„Þetta verður öðruvísi og ýmislegt skondið í þessu. Ég veit til dæmis um að einn fermingardrengur er búinn að stækka svo ört frá því í apríl þegar hann átti að fermast og hefur þurft að fara í tvígang að fá stærri fermingarföt í versluninni,“ segir Erla Guðmundsdóttir, sóknarprestur í Keflavíkurkirkju, aðspurð út í komandi fermingarhelgar síðsumars.
Erla segir að þau hafi beðið eftir tilkynningu frá yfirvöldum í þessari viku. Tvær helgar og fjórir fermingardagar voru áætlaðir í Keflavíkurkirkju síðustu helgina í ágúst og aðra helgina í september. Fyrirhugað var að vera með fermingu fyrir og eftir hádegi laugardaga og sunnudaga þessar helgar en í ljósi nýrra takmarkana verða athafnirnir helmingi fleiri með helmingi færri fermingarbörnum í hvert skipti eða fjórar hvern dag í stað tveggja.
„Upphaflega átti að vera með 28 börn í hverri athöfn en nú hefur verið ákveðið að þau verði fjórtán. Við erum að klára útfærsluna á þessu og munum gefa þetta út á næstu dögum,“ segir Erla en VF heyrði í henni á miðvikudag, skömmu eftir tilkynningu frá þríeykinu varðandi takmarkanir.
Að sögn Erlu mun hvert fermingarbarn þannig fá einn kirkjubekk fyrir sína nánustu til að vera viðstödd athöfnina. Athöfnin verður styttri þar sem ekki verður gengið til altaris.
„Við ætlum að gera okkar besta þannig að þetta verði hátíðlegt og skemmtilegt. Við náðum þó að klára fermingarundirbúninginn í mars, að vísu vantaði einn dag upp á en það slapp til. Þegar fermingum lýkur svo núna förum við að undirbúa næstu fermingartörn,“ sagði Erla og bætti því við aðspurð að margir hafi hætt við fermingarveislur, einhverjir ætli þó að bjóða til fagnaðar en allir eru meðvitaðir um að fara varlega.
Fermt í öllum kirkjum í ágúst og september
Ein ferming fór fram í lok mars, degi fyrir fyrsta samkomubann en það var í Njarðvík. Grindvíkingar ferma 23. ágúst. Í Keflavíkurkirkju verður fermt 28.-29. ágúst og aftur 12.-13. september. Í Njarðvík og Garði verða fermingar 20. og 27. september.
Frá fermingu í Ytri-Njarðvíkurkirkju.
Frá fermingarundirbúningi fyrr í vor hjá Sigurði Grétari sóknarpresti í Útskálaprestakalli.