Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Ferill skreyttur skrauti bakkusar
Miðvikudagur 1. febrúar 2012 kl. 14:41

Ferill skreyttur skrauti bakkusar

„Ég heiti Óli Stefán og er alkahólisti. Þessa setningu varð ég að segja upphátt í fullum sal af ókunnugu fólki þegar ég ákvað loks að taka á vandamálinu, þá 34 ára gamall. Ég hafði í raun vitað lengi að áfengisdrykkja var vandamál hjá mér en ekki haft kjark í að gera neitt í því fyrr en þarna,“ Þetta skrifar Grindvíkingurinn og knattspyrnumaðurinn, Óli Stefán Flóventsson í áhugaverðri grein á netmiðlinum fotbolti.net nú í dag. Óli Stefán fer þar yfir feril sinn innan og utan vallar á hreinskilinn og opinskáan hátt en hér að neðan má lesa pistil Óla.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

„Þegar ég hugsa um feril minn sem knattspyrnumanns í fremstu röð á Íslandi þá sé ég að hann er í raun skreyttur skrauti Bakkusar. Strax þegar að ég kom inn í meistaraflokk Grindavíkur sumarið 1993 fann ég að það var fátt skemmtilegra en þær skemmtanir sem voru í kringum boltann. Ég lét mig aldrei vanta enda voru þessar skemmtanir innan veggja íþróttarinnar því hlaut það að vera í lagi.

Algengustu leikdagar efstu deildar hafa alltaf verið sunnudagar eða mánudagar, ekki uppáhald leikmanna, sér í lagi hjá okkur djömmurunum. Lausnin við því að "missa" allar helgar frá maí og út september var einfaldlega að fá sér í glas á virkum dögum. Í fyrstu var þetta í felum en eftir þvi sem árin liðu varð þetta opnara og í dag nánast viðurkenndir djammdagar knattspyrnumanna.

Eftir leiki í gegnum tíðina hefur yfirleitt verið hittingur annaðhvort heima hjá einhverjum félaganum eða á barnum þar sem farið var yfir leik dagsins , að sjálfsögðu með bjór í hönd. Oftar en ekki endaði þessi hittingur á því að berjast við timburmenn dauðans daginn eftir.

Allar svokallaðar liðssamkomur hafa nánast ekki verið til nema boðið hafi verið upp á áfengi. Í fótboltanum er vinsælt að hafa móralskan hitting, annaðhvort til að rífa hópinn upp eftir dapurt gengi eða þá til að fagna góðu gengi, og haldið þið að boðið hafi verið uppá kaffi og sódavatn? Ég er aldeilis hræddur um ekki, nema kaffið væri írkst og sódavatnið bland.

Eftir erfitt tímabil, þar sem maður taldi sér alltaf trú um að maður hafi verið þurr allt sumarið, tók við sannkölluð vertíð í skemmtanalífi. Á þessu tímabili var notað hvert tækifæri til að fá sér neðan í því, ef það var ekki eitthvað um að vera þá bjó maður það bara til. Þegar æfingar byrjuðu svo aftur einum og hálfum mánuði seinna, mætti maður til leiks nokkrum kílóum of þungur og blankur, enda búinn að djamma meira á þeim tíma en venjulegur maður gerir yfir árið.

Ég átti alltaf von á því að þetta myndi eldast af mér, en eftir því sem árin liðu varð ástandið alvarlegra. Ég varð oftar fullur og drakk verr. Tími minn hjá Fjölni 2008 sló botninn úr öllu. Þetta var reyndar frábær tími hjá mér fótboltalega og ég spilaði vel. Fjölnir náði sínum besta árangri, 6.sæti í deildinni og við náðum alla leið í úrslit í bikarnum. Ég man svo vel eftir samtali mínu við öðlingsdrenginn, Ásmund Arnarsson þjálfara Fjölnis, á einni æfingunni síðla sumars. Hann hafði þá heyrt sögur af drykkju sumra leikmanna að mér meðtöldum. Ég sagði honum bara alveg eins og var og var heldur ekkert að skafa af því. Það var akkúrat þarna á þeirri stundu, úti á miðjum fótboltavelli að ég áttaði mig á hvað væri að gerast hjá mér. Ég átti við verulegt vandamál að stríða.

Það sem truflar mig er að ég var ótrúlega ánægður með árangur okkar þetta sumar. Ég þakkaði meira að segja því hvað mórallinn var góður, og að djammið og sukkið hafi haft sitt að segja í þessum árangri . Það sem ég gerði mér ekki grein fyrir þá, er að við hefðum náð enn ofar í deildinni og orðið bikarmeistarar ef bakkus hefði ekki ráðið ferðinni þetta sumarið hjá einhverjum leikmönnum því við vorum með það gott fótboltalið.

Ég hef spilað yfir 200 leiki í efstu deild og nokkra Evrópuleiki. Ég er að sjálfsögðu ánægður með það, en stóra spurningin sem ég berst við í dag er, hefði ég getað gert betur eða náð lengra? Ég hafði hæfileika en hvað eru hæfileikar ef þeir eru ekki fóðraðir rétt?

Af hverju er ég að skrifa sögu mína hér á vinsælasta fótboltamiðli Íslands? Jú vegna þess að ég veit að í hverju liði eru leikmenn sem eru á sömu götu og ég var á. Hvað eru til að mynda margir knattspyrnumenn sem bölva því að missa allar helgar á sumrin? Hvað eru margir knattspyrnumenn á Vegamótum eftir leiki með bjór við hönd , þó að það sé sunnudagur? Hversu margir leikmenn geta ekki beðið eftir vetrarfríinu svo það sé hægt að djamma allar helgar, og já jafnvel virka daga líka? Allt er þetta vel merktar aðvaranir sem ég fór framhjá á leiðinni.

Við erum í fullri vinnu við það að útrýma munntóbaki sem er alræmt vandamál knattspyrnuheimsins og er það hið besta mál, en erum við vakandi í áfengisforvörninni? Er það kannski viðurkennt vandamál sem við horfum bara í gegnum? Hversu margar forvarnarauglýsingar sjáum við þar sem tekið er á áfengisvandamáli íþróttamanna? Hversu marga leikmenn úrvalsdeildarliða sjáum við á plaggötum þar sem þeir eru auglýstir á öllum miðlum sem fyrirmyndarleikmenn því þeir drekka ekki? "Öl er böl" gæti verið fyrirsögn plaggatsins, það rímar meira að segja.

26. október 2009 tók ég bestu ákvörðun sem ég hef tekið í lífinu. Ég vaknaði á mánudegi, þunnur með móral, grár og myglaður og sagði upphátt "nú er ég hættur!" Síðan þá hef ég unnið stærstu sigrana. Ég þjálfa í dag lið Sindra og í þjálfun minni þarf ég að taka á málum tengdum áfengi eins og gengur og gerist.

„Margur heldur mig sig“ á sjálfsagt alltof oft við hjá mér en ég reyni að vera sanngjarn við strákana. Ég veit að að þrátt fyrir skugga fortíðar þá er ég góð fyrirmynd í dag og skila af mér góðu dagsverki á hverjum degi .... edrú.

Frétt frá Fótbolta.net.