Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Ferðaþjónustufólk í vorferð
Sunnudagur 15. apríl 2007 kl. 18:13

Ferðaþjónustufólk í vorferð

Leiðsögumenn Reykjaness, Upplýsingamiðstöð Reykjaness og Atvinnuráð Reykjanesbæjar í samstarfi við SBK buðu fyrirtækjum sem starfa að ferðaþjónustu og starfsfólki þeirra í vorferð um Suðurnes núna fyrir helgi.
Markmið ferðarinnar var að að efla tengsl og stuðla að samstarfi á milli þeirra fjölmörgu aðila á Suðurnesjum sem eiga hagsmuna að gæta af aukinni aðsókn ferðamanna.

Ferðin byrjaði í Duushúsum þar sem Valgerður Guðmundsdóttir menningarfulltrúi Reykjanesbæjar kynnti sýningarsali Duus húsa og menningartengda ferðaþjónustu í Reykjanesbæ. Þaðan var haldið í hvalaskoðunarbátinn Moby Dick þar sem Helga Ingimundardóttir kynnti starfsemina en hvalaskoðunarferðir sumarsins eru að hefjast.

Í Garði var boðið til hádegisverðar í Flösinni þar sem gestir skoðuðu byggðasafnið undir leiðsögn Ásgeirs Hjálmarssonar forstöðumanns. Oddný Harðardóttir, bæjarstjóri í Garði, kynnti framtíðarhorfur í ferðaþjónustu í sveitarfélaginu en m.a. stendur til að leggja göngustíg meðfram sjávarsíðunni og endurbyggja hluta Skagagarðsins svokallaða sem forðum lá frá túngarðinum á Kirkjubóli norður í túngarðinn á Útskálum.  Þá flutti sr. Björn Sveinn Björnsson erindi um uppbyggingu Útskála sem nú er í fullum gangi.

Eftir kynningu í hinu forvitnilega  Fræðasetri í Sandgerði  var haldið um nýja Ósabotnaveginn út á Reykjanes og staldrað við í Reykjanesvirkjun. Þaðan var haldið til Grindavíkur þar sem Óskar Sævarsson, ferðamálafulltrúi, tók á móti hópnum. Í Grindavík er margt að gerjast í ferða- og menningarmálum og hefur nýverið gefin út sérstök viðburðardagskrá sem hægt er að nálgast á heimasíðu bæjarins, www.grindavik.is. Þar ber einna hæst bæjarhátíð þeirra Grindvíkinga, Sjóarann síkáta, sem í ár verður veglegri en nokkru sinni fyrr.

Mynd: Glatt á hjalla um borð í Moby Dick. VF-mynd: elg.

Svipmyndir úr ferðinni má sjá í ljósmyndasafninu hér á síðunni.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024