Ferðast frá Dubai með besta flugfélagi heims
Ingibjörg Sesselja Björnsdóttir starfar hjá Emirates
Keflvíkingurinn Ingibjörg Sesselja Björnsdóttir hefur heimsótt yfir 20 lönd í fjórum heimsálfum á síðasta hálfa árinu. Hún starfar sem flugfreyja fyrir Emirates flugfélagið sem var á dögunum valið besta flugfélag í heiminum. Hjá flugfélaginu starfa um 18.000 flugfreyjur frá öllum heimshornum. Ingibjörg býr í Dubai í Sameinuðu arabísku furstadæmunum ásamt Ragnar Aroni Ragnarssyni kærasta sínum. Þau kunna ákaflega vel við sig í hitanum.
„Þetta kom mjög skyndilega upp og var ég efins alveg fram að brottfarardegi hvort þetta væri sniðugt; að segja upp vinnunni, íbúðinni og flytja til Mið-Austurlanda en ég sé alls ekki eftir því í dag. Ég hef alltaf haft mikla þörf fyrir að ferðast og þetta þótti mér fullkomin leið til að gera það á ódýran máta. Það hjálpaði einnig mikið að ég á yndislegan mann sem var tilbúinn að koma með mér í þetta ævintýri,“ segir Ingibjörg um þá ákvörðun að láta slag standa og flytja á framandi slóðir.
Stutt í sundlaugina og á ströndina
Dubai er fjölmennasta furstadæmi Sameinuðu arabísku furstadæmanna, UAE og næststærst á eftir Abu Dhabi. Þar búa 2,3 milljónir manna og eru heimamenn, Emerati fólk, í miklum minnihluta. Hátt í 90% þeirra sem búa í Dubai eru svokallaðir „expats“ en það er erlent vinnuafl. Þar eru fátækir verkamenn frá Indlandi, Pakistan og Bangladesh í miklum meirihluta og síðan er það vestræna vinnuaflið. Þarna blandast því margir menningarheimar saman við þann arabíska, að sögn Ingibjargar.
Þeim Ingibjörgu og Ragnari líður vel í Dubai og segja lífsstílinn þar henta sér vel.
„Við elskum að geta farið beint út í sundlaug þegar við vöknum og rölt síðan niður á strönd seinnipartinn. Veðrið er myndi ég segja stærsti kosturinn við að búa hérna en jafnframt mesti gallinn yfir sumarmánuðina. Á þeim tíma forðast maður að fara út á daginn og allt sem heitir AC verður besti vinur þinn, en hitinn fer allt upp í 50°. Það er erfitt að ímynda sér slíkan hita án þess að hafa upplifað hann en tilfinningin þegar þú labbar út er sú sama og þegar þú opnar bakaraofn,“ segir Ingibjörg.
Passa upp á klæðaburð og kossa á götum úti
Þrátt fyrir að Dubai sé talin fremur vestræn borg, svona miðað við mörg nágrannaríkin, þá segir Ingibjörg að það hafi verið mikil viðbrigði að flytja í múslimaríki þar sem saría-lög gilda. „Ég get þó ekki sagt að við finnum mikið fyrir því í daglegu lífi en það eru ýmsir hlutir sem maður lærir að passa upp á, líkt og klæðaburð á opinberum stöðum og það að leiðast eða kyssast ekki á götum úti. Einnig var skortur á beikoni mikið vandamál í fyrstu, áður en við uppgötuðum vandlega falið kjötborð í búðinni okkar sem býður upp á svínakjöt af öllum gerðum fyrir þá sem ekki eru múslimar. Það er aðallega yfir heilaga mánuðinn Ramadan sem þetta verður erfitt. Á þeim tíma er bannað að neyta matar eða drykkjar á almannafæri yfir daginn og öll skemmtun er bönnuð, þar með talin tónlist og neysla áfengis. Það er ótrúlegt að sjá hvernig borgin breytist og allt verður strangara. Vikudagarnir eru annað sem tók smá tíma að venjast en föstudagar eru frídagar múslima og byrjar helgin því á föstudögum hérna, og vinnuvikan á sunnudögum, sem getur verið mjög ruglandi.“
„Það er ótrúlegt keppnisskap í mönnum og þeir elska að slá heimsmet, hér er stærsta verslunarmiðstöð í heimi, hæsta bygging í heimi - Burj Khalifa, flottasta hótel í heimi – Burj al Arab, manngerðar eyjur, skíðabrekkur og svo má lengi telja, það virðist allt vera mögulegt.“
Mikið keppnisskap í íbúum Dubai
„Dubai er mjög vestræn borg og það er oft auðvelt að gleyma því að maður sé staddur í Mið-Austurlöndum. Skýjakljúfrar, lúxushótel og verslunarmiðstöðvar einkenna borgina ásamt þeim mikla fjölda af lúxusbifreiðum sem keyra um göturnar. Það er mikil uppbygging og spretta nýir skýjaklúfrar upp með ótrúlegum hraða. Þegar ég var að keyra frá flugvellinum fyrsta daginn þá sá ég auglýsingaskilti sem lýsir hugarfarinu í Dubai mjög vel. Þar var mynd af His Highness Sheikh Mohammed bin Rashid Al Maktoum og við hana stóð „If you think that winning isn’t everything, you don’t know Dubai“. Það er ótrúlegt keppnisskap í mönnum og þeir elska að slá heimsmet, hér er stærsta verslunarmiðstöð í heimi, hæsta bygging í heimi - Burj Khalifa, flottasta hótel í heimi – Burj al Arab, manngerðar eyjur, skíðabrekkur og svo má lengi telja, það virðist allt vera mögulegt.“
Næturlífið mjög líflegt
Ingibjörg segir að þau Ragnar séu heppin hvað varðar hverfi þeirra í borginni. Dubai er mjög dreifð og almennt er ekki gert ráð fyrir því að fólk ferðist öðruvísi en á bíl eða í lestum. Í Marina hverfinu þar sem þau búa má auðveldlega fara fótgangandi niður að höfninni og ströndinni. „Meðfram höfninni eru fjölmargir veitingastaðir og verslanir og það tekur einungis nokkrar mínútur að labba niður á strönd. Ég myndi hiklaust mæla með þessu hverfi fyrir þá sem hafa hug á að heimsækja borgina. Það er einnig alltaf nóg að gera hérna, sérstaklega þegar veðrið er svona þægilegt eins og núna. Það er mikið af skemmilegum veitingastöðum, skemmtistöðum og börum og næturlífið er mjög líflegt.“
Borgin á sínar skuggahliðar
„Dubai hefur upp á allt það besta að bjóða en það er erfitt að tala um ágæti borgarinnar án þess að minnast á skuggahliðar hennar,“ segir Ingibjörg. „Það hallar virkilega á mannréttindi á ýmsum sviðum og erlendu verkamennirnir sem byggja upp borgina lifa við hræðilegar aðstæður. Fólkið í Dubai skiptist í rauninni í þrjá hópa; hina ofurríku Emirata, vestræna vinnuaflið sem hefur það mjög gott og síðan hina sem lifa eins og þrælar.
20 lönd og fjórar heimsálfur
„Emirates er með 142 áfangastaði út um allan heim og það því er alltaf mikil spenna að fá skrána í hendurnar og sjá hvaða ævintýri eða martraðir bíða manns næsta mánuðinn,“ segir Ingibjörg sem á tæpu ári hefur heimsótt yfir 25 borgir í 20 löndum í fjórum heimsálfum.
„Þetta er ótrúlega stórt fyrirtæki og eru þeir með 18.000 flugfreyjur í vinnu alls staðar að úr heiminum. Þeir koma reglulega til Íslands og halda viðtöl en góður vinur minn plataði mig til að koma með sér í eitt slíkt sumarið 2013. Eftir það tók við langt ferli sem endaði á að ég flaug hingað út annan í jólum í fyrra og hóf sex vikna þjálfun. Það er mikið lagt upp úr þjálfuninni og eru þetta virkilega erfiðar sex vikur þar sem þú ert í bæði bóklegri og verklegri kennslu 12 klukkutíma á dag. Aðstæðurnar til þjálfunar eru með þeim bestu í heiminum og eru þeir með nokkra flughermi í fullri stærð sem líkja eftir þeim aðstæðum sem geta komið upp. Við erum við því mjög vel undir það búin ef eitthvað skyldi fara úrskeiðis um borð. Síðan fara síðustu tvær vikurnar í það að læra á þjónustuna en það er mikið lagt upp úr öllum smáatriðum þegar kemur að henni enda eru farþegarnir með miklar væntingar og gera miklar kröfur til okkar um borð.“
Ólíkir menningarheimar um borð
Ingibjörg starfar á stóru vélunum, bæði Boeing 777 og Airbus 380, sem taka allt upp í 517 farþega og 28 manns í áhöfn. „Vinnan sjálf getur verið mjög krefjandi þar sem við erum að eiga við svo ótrúlega ólíka menningarheima um borð og verð ég að viðurkenna að sumir reyna meira á þolinmæðina en aðrir. Það eru margar reglur sem þarf að fylgja en miklum aga er haldið uppi í fyrirtækinu, enda þurfa þeir að halda utan um þennan stóra hóp starfsmanna sem lítur út eins og sameinuðu þjóðirnar,“ segir Ingibjörg.
Jafnast ekkert á við íslensk jól
Fyrirtækið flýgur víða og ansi hreint mikið. Meira en gengur og gerist í Evrópu. Ingibjörg segir að það geti verið þreytandi að þurfa að vakna á öllum tímum sólarhrings á sífellu flakki milli tímabelta. Þó er hugsað vel um starfsfólkið sem gistir oftast á fallegum hótelum sem staðsett eru á besta stað í hverri borg. Að mati Ingibjargar skiptir það miklu máli þar sem margir gefist hreinlega upp á þessu flakki og er veltan á starfsfólkinu gríðarleg. Algengt er að fólk hætti eftir aðeins hálft ár í starfi. „Þetta er alls ekki auðvelt starf en fyrir mér finnst öll þessi vinna þess virði þegar ég lendi á nýjum spennandi áfangastað og ég ætla að fá að skoða aðeins meira af heiminum áður en ég sný mér að öðru,“ segir Ingibjörg glöð í bragði. Hún segist tvímælalaust mæla með starfinu fyrir alla þá sem vilja ferðast, þar sem fríðindin eru mjög mikil. Þannig er starfsmönnum gert kleift að ferðast mjög ódýrt á eigin vegum þegar þau eiga frí og það er auðvelt fyrir fjölskyldu og vini nýta sér þau fríðindi að sögn Ingibjargar.
„Ég ætla einmitt að nýta þessi fríðindi og koma heim í nokkra daga yfir jólin – það jafnast ekkert á við íslensk jól og get ég ekki beðið eftir að fá að eyða hátíðunum með fjölskyldu og vinum,“ segir ferðalangurinn og flugfreyjan Ingibjörg að lokum.
Forréttindi að ferðast
Eins og gefur að skilja hefur Ingibjörg heimsótt marga áhugaverða staði í starfi sínu. Hún segir tilfinninguna sem fylgi því að lenda í nýju landi halda henni gangandi í starfinu. „Það að fá að ferðast til framandi landa, fylgjast með fólki, kynnast ólíkum menningum og reyna að skilja hvernig lífið gengur fyrir sig á hverjum stað fyrir sig. Það eru mikil forréttindi að fá að ferðast svona mikið og ég er sífellt að læra eitthvað nýtt.“ Hún segir erfitt að gera upp á milli þeirra staða sem henni þykja áhugaverðastir.
„Ef ég ætti að nefna nokkra sem hafa staðið upp úr þá eru það Ástralía og Nýja-Sjáland, Suður Afríka, Mauritius sem er algjör paradís, sem og Feneyjar á Ítalíu. Síðan er alltaf gaman að koma til Suður-Asíu enda nauðsynlegt að komast í ódýrt nudd öðru hverju. Nýlega fór ég til Dhakar í Bangladesh en það er líklega sá staður sem hefur haft mest áhrif á mig, fátæktin sem fólkið þar býr við er gríðaleg og það var erfitt að horfa upp á aðstæðurnar, sérstaklega þegar við göngum með vopnuðum vörðum inn á fimm stjörnu lúxus hótelið okkar meðan fólkið sefur á götunum fyrir utan.“
„Fólkið í Dubai skiptist í rauninni í þrjá hópa, hina ofurríku Emirata, vestræna vinnuaflið sem hefur það mjög gott, og síðan hina sem lifa eins og þrælar“
Fjölskyldan í heimsókn hjá þeim Ingibjörgu og Ragnari.