Ferðamannastaður vikunnar á Suðurnesjum: Staðarborg
Staðarborg heitir sérkennilegt mannvirki og afar fallegt á miðri Strandarheiði í sveitarfélaginu Vogar. Mun þetta vera gömul fjárborg sem tilheyrði Kálfatjörn. Enginn veit þó nákvæmlega hvenær borgin var reist og ekki er vitað hvenær bændur áttu mikið fé að þyrfti svona stóra fjáborg, enda er hún óvenju stór; hæð veggja er 2 m, þykkt 1,5 m neðst, þvermál að innan 8 m og ummál að utan 35 m. Þjóðsagan segir að maður að nafni Guðmundur, mikill hagleiksmaður, hafi hlaðið borgina. Hann vandaði valið á steinum sem pössuðu vel saman og hlóð borgina eins og pússluspil. Þegar presturinn á Kálfatjörn kom eitt sinn að athuga hvernig gengi með verkið, sá hann þá, sér til mikillar gremju, að fullhlaðin myndi borgin verða hærri en kirkjuturninn í Kálfatjarnarkirkju og myndi skyggja á hann. Lagði hann blátt bann við að fullhlaða borgina, en þá reiddist Guðmundur, hætti við verkefnið og hvarf á braut. Sagt er að presturinn og sálmaskáldið Sr. Stefán Thorarensen á Kálfatjörn hafi boðið heimilisfólki og öðrum sóknarbörnum sínum í töðugjöld í Staðarborg. Var þar drukkið heitt súkkulaði.
Auðvelt er að ganga að Staðarborg, hvort heldur er frá gamla þjóðveginum um Vatnsleysuströnd eða frá Reykjanesbraut. Gömul þjóðleið, Þórustaðastígur, liggur framhjá borginni áleiðis upp að Krýsuvík. Skilti er við gamla þjóðveginn og vegvísar þar sem best er að hefja gönguna. Hvort sem valið er, tekur gangan ca. 20 – 30 mínútur. Staðarborg hefur verið friðlýst sem fornminjar frá 1951.