FER EKKI Á GRÁSLEPPUVEIÐAR Í ÁR
Mikið hefur verið rætt um grásleppuvertíðina þetta árið eftir afar treglega sölu á síðasta ári og lág verð. Veiðin hefur gengið vonum framar, það sem af er, þó vafi sé á um markaði. VF ræddu við Ólaf Björnsson, útgerðarmann og skipstjóra á Sandvíkingur GK 312, um stöðu grásleppuveiðanna og framtíð grásleppuhrognasölu.„Ég hef aðeins verið í þessu í 5 ár svo varla get ég talist alfróður um grásleppuhrognasölu. Heimsmarkaður er ekki flókinn, hann þolir aðeins um 35 þúsund tunnur á ári. Síðan er þetta einfaldlega spurning um framboð, eftirspurn og birgðastöðu á hverju ári. 1996 var grásleppan u.þ.b. 25% af ársveltunni hjá mér og verð á tunnu milli 76 þúsund krónur en í ár ætla ég einfaldlega að pakka saman veiðarfærunum og bíða breytts ástands enda viðmiðunarverð Landssambandsins aðeins 41 þúsund og tölum eins og 35 þúsund per tunnu kastað fram manna í millum. Þetta er áhættusöm útgerð og alltaf hætta á því að tapa lagningunni því lagt er svo nærri landi. Grásleppuleyfi sem ég greiddi hartnær hálfa milljón fyrir 1994 gæti ég í líklegast ekki gefið í dag.“Er þetta tapaður atvinnuvegur fyrir okkur Íslendinga?„Ekki segi ég það nú. Markaðurinn virðist þó hrynja reglulega, liggja síðan niðri í nokkur ár og rísa svo upp að nýju. Nú eru nýjar fiskveiðiþjóðir að koma inn, Grænlendingar í fyrra og Rússar eru að koma inn núna. Ef þessar þjóðir eru tilbúnar að sætta sig við lægra verð en við, til frambúðar, hverfum við einfaldlega af markaðnum í einhvern tíma.“Eru ekki einhverjir sem hafa sína aðalatvinnu af grásleppunni?„Það er rétt, fjöldi eldri trillueigenda hefur ekki að öðru að snúa og ástandið þeim afar erfitt. Landssamband smábátaeiganda sendi okkur vinsamleg tilmæli um að leggja ekki upp í veiðar nema að hafa vilyrði fyrir afurðakaupum. Sams konar tilmæli hafa borist frá söluaðilunum sjálfum.“Sérðu enga von fyrir grásleppukarlana í framtíðinni?„Nú þegar hafa 450 bátar leyfi til grásleppuveiða og í ár munu margir þessara báta ekki nýta sér veiðiheimildina. Veiðiþjóðirnar eru orðnar sex og heimsmarkaðurinn tekur aðeins ákveðið magn. Mér finnst að þegar svona árar ætti að láta þá sem sækja árstekjurnar að öllu leyti í grásleppuna um veiðina en það eru að mestu eldri menn. Sé það gert er möguleiki að ná því jafnvægi sem þarf á markaðinn. Grásleppuveiði verður alltaf stunduð en menn þurfa að gera sér grein fyrir því að markaðurinn er ekki ótakmarkaður og miklar sveiflur öllum í óhag.“Nú hefur það heyrst meðal sjómanna að þetta séu aðeins samantekin ráð kaupenda til að halda niðri verðinu?„Ég hef ekki trú á því. Það er einfaldlega lögmálið um framboð og eftirspurn sem ræður þessu. Verðið sem er gefið upp núna, 41 þúsund, er aðeins viðmiðunarverð og í raun engin verð í gildi.jak.