Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Mannlíf

„Fengum menningarsjokk þegar við sáum öll jólaljósin í kirkjugarðinum hér í bæ.“
Miðvikudagur 28. desember 2011 kl. 15:17

„Fengum menningarsjokk þegar við sáum öll jólaljósin í kirkjugarðinum hér í bæ.“

- Öðruvísi jól - Portúgal og Pólland

Á Ásbrú er fjölbreytt samfélag þar sem fólk af ólíkum uppruna býr. Í einni af rúmgóðu íbúðunum býr par frá Portúgal og Póllandi og líkar vel, þau segja það notalegt að búa í kyrrðinni en það mætti samt vera meira líf á gamla vellinum að þeirra sögn. Hins vegar er öll aðstaða fín og stutt að fara til þess að nýta sér þjónustu í Reykjanesbæ en einnig kíkja þau af og til í höfuðborgina. Tomas Miklis kemur frá borginni Katowice í Póllandi og hefur búið á Íslandi í eitt ár en hann bjó einnig hér á landi árið 2008 þar sem hann nam meistaranám við Orkuskólann á Akureyri þar sem hann lærði um endurnýjanlega orkugjafa. Hann gegnir stöðu fagstjóra við Orku – og tækniskóla Keilis og kennir einnig nokkur námskeið samhliða því. „Ég tek þátt í að móta námið t.d. með því að skipulegga hvernig námskeið eru byggð upp og yfirsé námskránna. Keilir hefur gott starfs – og námsumhverfi að mínu mati, það eru fullt af spennandi verkefnum sem við erum að byggja upp og mörg tækifæri. Námið er einstakt að því leiti að það er þverfaglegt og námið byggist á bóklegum hluta og verkefnavinnu sem byggir á raunverulegum atvinnutengdum verkefnum,“ segir Tomas. Aðspurður um dvölina á Íslandi segist Tomast líða vel á Íslandi þó að tungumálið sé erfitt. Landið segir hann vera gríðarlega fallegt og mikið hægt að gera í útiveru sem honum líkar vel við. Einnig gera kennararnir ýmislegt saman en þeir spila m.a. skvass í íþróttahúsinu á Ásbrú.

Presturinn krítar á útidyrahurðirnar

Jólin í Póllandi eru ákaflega trúarlegs eðlis en 90% þjóðarinnar eru kaþólikkar og eru pólsku jólahefðirnar eftir því. Í desember er siður að fá prestinn úr hverfiskirkjunni í heimsókn en þá mætir hann inn á heimili með möppu með upplýsingum um kirkjusókn heimilisfólksins og skoðar hvort fólk hafi verið duglegt að mæta í kirkju. Börnin sýna prestinum svo árangur sinn úr kristinfræði í skólanum og presturinn safnar saman peningum sem fjölskyldan hefur ráð á að gefa til kirkjunnar. Í lok heimsóknarinnar ritar presturinn svo með krít á útidyrahurðina stafina K, M, B sem tákna vitringana þrjá og er merki um að þetta hús sé búið að heimsækja. Þann 6.desember er Sankti Nikulásardagurinn, sem haldinn er víðs vegar um Evrópu þar sem kaþólsk trú er ráðandi en þá fá börn gjafir frá jólasveininum.

Tólf rétta máltíð en ekkert kjöt

Á Aðfangadagskvöldi er haldin mikil fjölskylduveisla, tólf rétta máltíð er snædd en allir réttirnr eru allir án kjöts. Maturinn samanstendur af hefðbundnum pólskum réttum sem eru alls kyns fiskréttir, grænmeti, súpa og fleiri pólskir réttir. Þessir tólf réttir tákna tólf postula jesú krists. „Undir jólaborðdúkinn setjum við strá sem á að tákna jötu jesúbarnsins. Heima hjá mér leggjum við einnig á borð fyrir einn aukagest ef einhver svangur skyldi banka upp á. Móðir mín er svo dugleg að láta okkur fjölskylduna syngja saman jólalög en þá hækkar hún í græjunum og kallar á okkur um að koma inn í stofu.“

Fjölskyldan sér ekki sjálf um jólamatseldina

Sambýliskona Tómasar er Helena Venda en hún er portúgalskur markaðsfræðingur sem er tiltölulega nýkomin til landsins til þess að vera með manni sínum og er hún í atvinnuleit um sinn. Helena kemur frá bænum Torres Vedras sem er skammt frá höfuðborginni Lissabon. Aðspurð um jólahefðir Portúgala segir Helena þær ekki vera eins sérstakar og hér á landi þegar blaðamaður segir parinu frá jólasveinunum þrettán sem gefa börnunum í skóinn. „Eins og víða borðar fjölskyldan saman þann 24. desember og borða allir Portúgalir þorsk sem er steiktur á mjög háum hita. Þorskurinn er settur í vatn þremur dögum fyrir jól og það þarf að skipta um vatn á þriggja tíma fresti. Hann er maríneraður í ediki og ólífuolíu. Með þessu borðum við soðið kál, soðið egg og kartöflur. Í eftirrétt er oftast djúpsteikt kaka sem svipar til íslensku kleinunnar eða Ris ala mande. Áður en fjölskyldan borðar saman fer fólk oftast með bænir og hugsar til þeirra sem eru heyrnalausir. Ekki veit ég af hverju þetta er gert en gamla fólkið gerir þetta alltaf, “ segir Helena. Á jólunum er mjög algengt að fjölskyldur með fleiri en þrjú börn ráði til sín manneskju á aðfangadag sem sér um að elda matinn. Hún matreiðir fiskinn sem er hafður um kvöldið, allt meðlæti og einnig kalkúninn sem borðaður er á jóladag. Helena segir fjölskylduna og flesta Portúgali helst ekki vilja þurfa að elda á jóladag, en ekki eru borðaðir afgangar á jóldag eins og víða á íslenskum heimilum. Eftir jólamatinn situr fólk saman við arineldinn og bíður eftir að jólasveininn komi en hann kíkir í heimsókn á miðnætti og gefur börnunum gjafir.

Aldrei séð jafn mikinn snjó

Helena er hrifin af snjónum á Íslandi en hún hefur aldrei séð slíkt magn af snjó áður. Yfirleitt er rigning yfir jólin í Portúgal og nokkkura stiga hiti. Það eina sem truflar hana er að keyra um í snjónum en hún segist vera alveg reynslulaus á því sviði. Helena og Tomas eru á sama máli um jólaskreytingar Íslendingar séu eitthvað sem þau hafi aldrei séð áður í sama magni en þau hafa búið í fleiri löndum en heimalöndum sínum. Þeim finnist æðislegt hvernig Íslendingar noti jólaseríur til þess að skapa notalegt umhverfi á myrkum dögum. Bæði voru þau þó verulega undrandi þegar þau keyrðu framhjá kirkjugarðinum í Keflavík. „Ég fékk menningarsjokk! Í kaþólsku samfélögunum sem við erum vön væri þetta mjög umdeilt, að skreyta leiði og eflaust litið hornauga,“ segir parið að lokum.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024