Fengu námsstyrki frá SpKef
Árlegum námsstyrkjum í Námsmannaþjónustu Sparisjóðsins í Keflavík hefur verið úthlutað. Eftirtaldir námsmenn fengu styrk að upphæð kr. 150.000 í ár:
Björk Ólafsdóttir sem lauk BS gráðu í læknisfræði frá Kaupmannahafnarháskóla, Elísabet Rúnarsdóttir sem útskrifast með MS í Byggingarverkfræði frá Norges teknisk-naturvitenskapelige universitet og Halldór Karl Halldórsson sem lýkur MS gráðu í lögfræði Háskólanum í Reykjavík.
Dómnefndin skipuð Oddnýju Harðardóttur, bæjarstjóra í Garði, og Böðvar Jónssyni, aðstoðarmanni fjármálaráðaherra, sá um valið á styrkþegum.
Í tilkynningu frá SpKef segir að innbyggt sé í stefnu Sparisjóðins í Keflavík að veita vel til samfélagsins og styrkir Sparisjóðsins til menntamála hafa aukist verulega á síðustu árum. Með tilkomu Íþróttaakademíunnar í Reykjanesbæ og Keilis á varnarliðssvæðinu hafa skapast ný tækifæri fyrir í menntamálum og hefur Sparisjóðurinn í Keflavík tekið fullan þátt í þeim verkefnum. Einnig hefur samstarf Fjölbrautaskóla Suðurnesja og Sparisjóðsins verið með miklum ágætum.
Námsstyrkirnir sem nú eru veittir eru til þeirra námsmanna sem eru að ljúka framhaldsnámi á háskóla- eða tækniskólastigi. Sparisjóðurinn í Keflavík hefur ætíð styrkt íþrótta- og menningarstarf á starfssvæði sínu og eru námsstyrkirnir mikilvægur hluti af því starfi. Þeir hafa nú verið veittir sautján ár í röð og hafa samtals 63 námsmenn fengið styrki. Með styrkveitingunum er Sparisjóðurinn að veita viðurkenningar til þeirra er lokið hafa krefjandi námi og jafnframt að fjárfesta í fólki sem skilar okkur hærra menntunarstigi og fjölbreyttara mannlífi.
Meðfylgjandi mynd frá vinstri: Geirmundur Kristinsson, sparisjóðsstjóri. Elísabet Rúnarsdóttir, Halldór Karl Halldórsson, Arnbjörn f.h. Bjarkar Ólafsdóttur og Baldur Guðmundsson, markaðsstjóri SPKEF.