Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Fengu hljóðkerfi að gjöf
Fimmtudagur 22. mars 2007 kl. 18:23

Fengu hljóðkerfi að gjöf

Holtaskóli fékk glæsilega gjöf á dögunum þegar foreldrafélag skólans kom færandi hendi og afhenti tvö glæsileg hljóðkerfi til notkunar í kennslustofum skólans. Kefin eru fjölnota m.a. er hægt að tengja sjónvarp inn á þau sem og tónhleðslutæki (i-pod).


Björn Víkingur Skúlason, aðstoðarskólastjóri Holtaskóla, segir hljóðkerfin þegar hafa verið mikið notuð og gefið góða raun. Bæði léttir hljóðkerfið undir með kennurum sem þurfa síður að brýna raustina, nemendur heyra betur í þeim og eins eru nemendur með hljóðnema sem er látinn ganga á milli þegar þeir lesa upphátt. „Þetta er nútíminn. Ég er viss um að svona hljóðkerfi verður staðalútbúnaður í skólum áður en langt um líður.“ Við höfum heyrt af grunnskólum hér á landi sem eru komnir með 16 tæki í skólann.


Þær Elínborg Herbertsdóttir og Lóa Björg Gestsdóttir hafa notað tækin, sem má færa milli stofa með lítilli fyrirhöfn, við kennslu og segjast hæstánægðar. „Það munar reglulega um þetta. Bæði heyra krakkarnir betur í kennara og eins heyrist betur í þeim við lestur. Við finnum líka að þau spyrja mun fleiri spurninga er annars og við vonum að þetta verði framtíðin í kennslu.“


Annar kostur við þetta kerfi er að það veitir börnum dýrmæta reynslu í að koma fram og tala frammi fyrir hópi fólks. Því samsinna tveir nemendur sem Víkurfréttir töluðu við.
„Þetta var fyrst vandræðalegt en svo vandist þetta,“ sagði Kristjana Dögg Jónsdóttir í 7. LBG sem hefur reynt búnaðinn. „Það er líka mjög þægilegt að geta talað með sinni eigin rödd en þurfa ekki að hækka róminn.“
Arnór Svansson sem er einnig í 7. bekk tekur í sama streng. „Það er mikill munur að þurfa ekki að tala eins hátt og svo heldur kennarinn athygli nemenda mun betur og það sem hann segir kemst betur til skila.“


Lóa Bragadóttir, formaður foreldrafélagins, segir félagið hafa íhugað kaupin vel og komist að því að hljóðkerfi væri brýnt verkefni. „Þetta ætti að vera eitt af grunntækjunum í skólastarfi þar sem það nýtist bæði nemendum og kennurum, en það er mjög dýrt. Við erum hins vegar mjög ánægð með hvernig til tókst og erum viss um að þetta mun borga sig.“


Gjöfin er borguð úr sjóði félagsins en Lóa segir að foreldrar hefi verið sérlega dugleg við að greiða gjöldin. „Þetta er stór gjöf, en við ætlum á næstunni að kaupa eitthvað minna t.d. leikföng sem börnin geta notið sjálf.“

VF-myndir/Þorgils 1: Fulltrúar foreldrafélagsins og Holtaskóla við afhendinguna. 2: Kristjana og Arnór segjast ánægð með reynslu sína af hljóðkerfinu.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024