Félagsvist og dans í fermingarveislunni
-Sigurlaug Einarsdóttir fermdist árið 1965
„Ég minnist þess að mér leið vel og fannst allt svo yndislegt á fermingardaginn minn. Athöfnin í kirkjunni náði vel til mín og veislan í Aðalveri um kvöldið er eftirminnileg með heitum mat, tertum, félagsvist og dans á eftir. Veislan var haldin fyrir mig og Jónas Ragnarsson frænda minn. Hjónin Unnur Arngrímsdóttir og Hermann Ragnar danskennarar voru í veislunni og ég man að í lok veislunnar tóku þau snúning og fengu marga veislugesti út á dansgólf.
Fermingargjafirnar vöktu gleði þá sem nú, flest allir fengu armbandsúr og hefðbundna skiptingin var þannig að stelpurnar fengu náttföt, undirpils og skartgripi en strákarnir bækur og peninga. Eldri bróðir minn var stórtækur og gaf mér snyrtiborð sem er ennþá vinsælt í fjölskyldunni. Það var heilmikil fyrirhöfn í kringum fermingarkjólinn minn sem var saumaður hjá kjólameistara. Svo var sérstök fermingarkápa keypt handa mér í Laufinu í Reykjavík.
Í fermingarundirbúningnum var mikið lagt upp úr því að læra marga sálma og helst allt utanbókar. Skrifa ritgerðir um boðorðin og ég man að ég átti ritgerð í fermingarblaðinu sem kom út á þeim tíma og bar yfirskriftina „Heiðra skaltu föður þinn og móður“.
Eitt atvik kemur sérstaklega upp í hugann en það var þegar séra Björn spurði bekkinn í kristinfræðitíma snemma í undirbúningsferlinu hvort við værum búin að læra trúarjátninguna. Ég var fljót að rétta upp hönd og var látin fara með trúarjátninguna utanbókar fyrir bekkinn. Vinkonurnar höfðu á orði: „Vá, ertu búin að læra þetta utanbókar?“
Það er engin spurning að ég tók allan undirbúning fyrir ferminguna mjög alvarlega, var dugleg við utanbókarlærdóminn og fræðslan sem séra Björn veitti okkur hefur reynst mér vel í lífinu. Ég tel að sá kraftur sem fylgdi trúnni í fermingarundirbúningnum hafi náð sterkt til mín á þessum tíma og hjálpað mér að rækta kærleikann í lífi mínu.“