Félagsvirkur orkuráðgjafi í Vogum
„Vogar eru á mikilli uppleið, það eru mikil tækifæri hér,“ segir Friðrik Valdimar Árnason sem er alinn upp í Vogum og fluttist þangað aftur ásamt fjölskyldu sinni eftir að hann og kona hans luku námi í Danmörku. Hann hefur alltaf verið virkur í félagslífi Vogabúa og tekur í dag þátt í bæjarpólitíkinni.
Friðrik fór yfir fyrstu skrefin í sínu lífi. „Ég er alinn upp hér í Vogum og hef búið hér mestan hluta lífs míns. Það eru forréttindi að ala upp börn í Vogum þar sem frelsið er mikið, við Helga Ágústsdóttir, eiginkona mín, eigum fjögur börn saman. Eftir að grunnskólagöngu lauk fór ég í Fjölbrautaskóla Suðurnesja en færði mig yfir í Iðnskólann þar sem ég kynntist Helgu og útskrifaðist sem tækniteiknari. Eftir útskrift fór ég að vinna, fyrst á bílaleigu á Keflavíkurflugvelli og svo hjá Icelandair. Við Helga fórum svo að huga að frekara námi og vorum nálægt því að fara til Bandaríkjanna í nám en ákváðum svo að Danmörk væri þægilegri staður því við vorum með frumburðinn okkar, Finn Valdimar, og settumst að í Óðinsvéum og fórum í nám. Ég byrjaði í byggingafræði og eftir útskrift ákváðum við að flytja til Kaupmannahafnar og ég stundaði nám í orkutæknifræði sem snýst aðallega um að nýta orkuna sem best. Við fluttum svo heim árið 2013 og fór ég að vinna hjá Orkusölunni, byrjaði að vinna í orkuráðgjöf fyrir fyrirtæki og var aðallega í greiningum og ráðgjöf í fyrirtækjum, hvernig þau gætu dregið úr orkunotkun. Ég færði mig svo um tíma yfir til Isavia þar sem ég var verkefnastjóri í byggingaframkvæmdum. Í því starfi nýttist það sem ég lærði fyrst í Danmörku en áhugi minn liggur meira í orkugeiranum og ég fór aftur yfir til Orkusölunnar sem sérfræðingur í hleðslulausnum. Ég þurfti aðeins að uppfæra kunnáttuna frá því úr orkunáminu, læra á hvernig rafmagnið virkar, sólarsellur, mótorar og annað slíkt og er í dag að að fara út um allt land og skipuleggja uppbyggingu á hleðsluneti Orkusölunnar.“
Virkur í félagsstarfinu í Vogum
Friðrik hefur alltaf tekið þátt í félagsstarfinu í Vogum. „Þegar við fluttum aftur til Voga fann ég hvað ég vildi láta gott af mér leiða, ég byrjaði strax að æfa og spila með Þrótti og tók þátt í starfinu í kringum fótboltann. Ég fór í stjórn eftir að ég hætti að spila og var um tíma formaður. Það var mjög skemmtilegur tími, mikill uppgangur þar sem við fórum úr fjórðu deild og komumst á endanum upp í næstefstu deild í fyrra. Svo datt ég í stjórn hjá Norræna félaginu, er gjaldkeri, en þetta er skemmtilegur félagsskapur sem heldur tengsl við vinabæ Voga í Noregi. Í sumar fór t.d. hópur héðan og tók þátt í hlaupi sem er til heiðurs Leifi Eiríks. Við erum byrjuð að huga að heimsókn Norðmannanna til okkar og hver veit, vonandi munu bætast við fleiri vinabæir á Norðurlöndunum.
Í dag einbeiti ég mér að bæjarpólitíkinni en fyrir síðustu kosningar bauð ég mig fram fyrir hönd E-listans sem er óháður flokkur góðs fólks sem vill láta gott af sér leiða fyrir samfélagið sitt. Vogar eru á góðri leið myndi ég segja, staðsetningin er frábær því við erum þannig séð mitt á milli. Það er stutt að skjótast til Reykjavíkur, stutt upp á flugvöll enda er alltaf að aukast að fólk flytji af höfuðborgarsvæðinu til okkar. Loksins er matvörubúð starfrækt í Vogum, það er verið að skipuleggja opnun heilsugæslu og nýlega opnaði nýr veitingastaður svo það er allt í gangi. Nú þurfum við bara að fara laða fyrirtæki inn í bæinn. Það er verið að skipuleggja stórt og mikið iðnaðarsvæði, Vogar búa yfir miklu landsvæði og sumstaðar liggur vatn undir sem hentar vel fyrir fiskeldi t.d. Ég myndi hvetja alla til að taka þátt í félagsstarfi í samfélaginu, því það er bæði gefandi og býr til gott samfélag.
Ég sé Voga fyrir mér eftir þrjú ár þannig að við verðum búin að stækka og fjölbreyttari atvinna verði í boði. Íþróttalífið mun þ.a.l. styrkjast, m.a. barna- og unglingastarfið. Ég sé ekki annað en við munum bara vaxa og dafna á næstunni,“ sagði Friðrik að lokum.