Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Fimmtudagur 16. september 1999 kl. 15:33

FÉLAGSSTARF ELDRI BORGARA Á SUÐURNESJUM:

Aðeins 100 af 800 eldri borgurum taka þátt í félagsstarfi Mikil gróska er í félagsstarfi eldri borgara á Suðurnesjum en svo virðist sem stór hluti eldri borgara á svæðinu viti ekki hvað er í boði. Í Reykjanesbæ eru 800 manns sem eru 67 ára og eldri en aðeins rúmlega 100 manns sem taka virkan þátt í starfi eldri borgara. Karlanna er sárt saknað í tómstundastarfinu og hér með er auglýst eftir fleir karlmönnum. Margt er í boði og allir ættu að finna eitthvað við sitt hæfi. Ýmsir aðilar koma að starfi eldri borgara, Félag eldri borgara, Púttklúbburinn og tómstundastarf eldri borgara í Reykjanesbæ. Jóhanna Arngrímsdóttir er umsjónarmaður tómstundastarfsins og Hrafnhildur Atladóttir er umsjónarmaður handverks. Aðrir leiðbeinendur eru Guðbjörg Marteinsdóttir, Elín Guðnadóttir og í eldhúsinu í Hvammi er Jóhanna Hermannsdóttir. Við tókum hús á þeim Jóhönnu og Hrafnhildi til að fræðast meira um starfsemina. „Við byrjuðum báðar að vinna hér fyrir tæpum þremur árum síðan og innleiddum þar nokkrar nýjungar, t.d. glerskurð og nýjar aðferðir við silkimálun. Við erum í mjög góðu samstarfi við Félag eldri borgara og Púttklúbbinn, sem er með aðstöðu í Röstinni í Keflavík. Púttklúbburinn er mjög vinsæll og skráðir félagar eru um 100. Fólk hittist daglega og púttar frá klukkan eitt til þrjú.” Hvaða starfsemi er á vegum Félags eldri borgara? „Þeir eru í Landssambandi eldri borgara og sjá um hagsmunamál. Tvisvar í viku hittist fólk í skrúðgarðinum í Keflavík og fer í heilsugöngu. Eldeyjarkórinn hefur verið að gera það mjög gott og í honum eru um 50 kórfélagar. Kórinn fór m.a. til Ítalíu í tónleikaferð sumarið 1998. Félagsvistin og bingókvöldin í Selinu hafa verið mjög vel sótt en aðeins hefur dofnað yfir bridds-klúbbnum. Félag eldri borgara skipuleggur líka ferðir innanlands og utan sem hafa verið mjög vinsælar. Í sumar var t.d. farið til Benidorm, Þýskalands og Norðurlanda auk ferða um Ísland, svo hefur félagið líka staðið fyrir leikhúsferðum.” Eru eldri borgarar almennt vel upplýstir um hvað er á dagskrá? „Nei, það þarf að auglýsa starfið meira en þeir sem koma eru ánægðir með það sem í boði er. Áhugasamir þurfa bara að koma í félagsmiðstöðvarnar því þar liggja frammi stundaskrár um tómstundastarfið og þar er hægt að fá frekari upplýsingar.” Hvaða skilyrði eru fyrir þátttöku í félagsstarfi eldri borgara? „Fólk þarf að vera 60 ára til að komst í Félag eldri borgara, en margir halda að þeir verði að vera orðnir 67 ára og hika því við að koma. Okkur þykir mjög gott að fá yngra fólkið til okkar, þá eyðileggst kannski þessi grýla sem hefur fylgt því að verða „löggilt gamalmenni”. Fólk kemur og fær að kynnst hvað það er gaman að taka þátt í félagsstarfi eldri borgara og fer jafnvel að hlakka til að geta hætt að vinna til að geta tekið virkari þátt í því.” Hvað eruð þið að gera í tómstundastarfinu? „Við gerum mest af því að sjá um föndur og leikfimi. Við bjóðum uppá almenna handavinnu sem felst m.a. í að mála á púða og dúka, prjóna o.fl. Svo erum við með silkimálun, keramik og gler og eftir áramót stendur til að bjóða uppá leirmótun.” Eru karlmenn duglegir við að mæta í handavinnuna? „Hingað til hefur eingöngu kvenfólk komið í almenna handavinnu og silkimálun en auðvitað eru allir velkomnir því karlmenn geta líka málað. Þeir hafa hins vegar verið duglegir við að koma í glerlistina og einn er virkur í keramikinu. Okkur langar mikið til að bjóða uppá tréskurðarnámskeið og koma þannig betur til móts við karlmennina og gaman væri að heyra í áhugafólki um tréskurð til að sjá grundvöllinn fyrir slíkri starfsemi. Þeim sem áhuga hafa ættu að hringja í aðra hvora okkar (sjá símanúmer hér að neðan).” Hvar eyða karlarnir þá tíma sínum? „Púttklúbburinn hefur komið rosalega vel út fyrir karlana og þeir koma líka í Boccia. Þeir mættu þó vera duglegri við að koma og við auglýsum hér með eftir fleiri karlmönnum.” Gerið þið fleira en að föndra? „Við höfum farið í styttri ferðir, við fórum t.d. að skoða Árbæjarsafnið og til Reykjavíkur í handavinnubúðir, í Kringluna og í bíó. Fyrir jólin höfum við skipulagt sérstakar konuferðir og þá förum við í búðir og á kaffihús.” Er einhver þjónusta fyrir fólk sem kemst ekki út úr húsi? „Kirkjan hefur sinnt þeim hópi og sjálfboðaliðar innan Rauða Krossins. Hjá Félagsmálastofnun er all mögulegt í boði, m.a. heimsóknarþjónusta, heimilishjálp, yfirseta og heimsending matar. Það þyrfti að hafa fund einu sinni á ári með fólki sem verður 67 ára á árinu og kynna því hvaða þjónusta er í boði.” Hafið þið verið með fræðslufundi fyrir eldri borgara? „Já, í fyrra héldum við nokkra fræðslufundi í samstarfi við Reykjanesbær á réttu róli. Undirtektirnar voru því miður ekki nógu góðar. Við fengum sérfræðinga til að halda fyrirlestra sem fjölluðu m.a. um þvagleka, alls konar fötlun og hreyfihömlun, slys í heimahúsum og hvernig á að bregðast við og hvernig er hægt er að koma í veg fyrir að fólk detti um alls konar hluti.” Dagvistun Að Suðurgötu í Keflavík býðst eldra fólki að koma í dagvistun, húsið er opið frá klukkan 8 til kl.16 alla daga. Fólk er sótt til síns heima á milli klukkan 8 og 9 og fær morgunmat þegar það kemur á staðinn. Í hádeginu er boðið upp á heita máltíð og á eftir getur fólk lagt sig. Síðdegis er svo kaffi og meðlæti. Einnig getur fólk fengið aðstoð við böðun og við að þvo þvottinn sinn. Markmiðið er að eldra fólkið fái tækifæri til að eyða deginum eins og fjölskylda, gripið er í spil, lesnar sögur og horft á góðar bíómyndir. Fólk greiðir 500 krónur á dag fyrir þessa þjónustu. Nýtt húsnæði Um páskana fengu aldraðir nýtt húsnæði til afnota að Vesturbraut 17 sem hefur fengið nafnið Smiðjan. Þar er hægt að fara í keramik og glerlist. Jóhanna og Hrafnhildur eru sammála um að það hafi verið mikill munur að fá þessa aðstöðu en draumurinn er að fá félagsmiðstöð þar sem öll starfsemi væri undir sama þaki. Þangað gæti fólk komið í dagvistun, fengið sér kaffi og létta máltíð, farið í pútt, boccia, föndrað og hitt skemmtilegt fólk. Frekari upplýsingar um félagsstarf aldraðra fást í símum: Lórý - 421 1844 Hilmar Jónsson - 421 1669 Jóhanna - 861 2085 Hrafnhildur - 864 1520
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024