Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Félagsskapur sem uppfyllir  þarfir kvenna á Suðurnesjum
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
laugardaginn 25. febrúar 2023 kl. 08:20

Félagsskapur sem uppfyllir þarfir kvenna á Suðurnesjum

Fida Abu Libdeh er formaður Félags kvenna í atvinnulífinu á Suðurnesjum. Félagið stóð fyrir fyrirlestri fyrir konur um vinnustaðamenningu sem Steinunn Snorradóttir hélt í Krossmóa í Reykjanesbæ í síðustu viku. Félagið er rétt um ársgamalt á Suðurnesjum og hefur vaxið hratt. Það byrjaði með tuttugu konum en þær eru sjötíu í dag. En hvernig kom það til að Félag kvenna í atvinnulífinu var stofnað og hver var ástæðan fyrir því? Fida svarar því.

„Við Guðný Birna Guðmundsdóttir stofnuðum FKA á Suðurnesjum. Við vorum búnar að vera FKA konur í nokkur ár og þurftum að sækja þjónustuna til Reykjavíkur. Okkur finnst við eiga mjög flottar konur á Suðurnesjum sem við þurfum að varpa ljósi á og setja meira í sviðsljósið þannig að okkar félag er meira að uppfylla þarfir kvenna á Suðurnesjum. Þarfir okkar eru öðruvísi en annarra kvenna á Íslandi.“

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Hver er áherslan í starfinu hjá ykkur í félaginu?

„Fyrst og fremst erum við að efla konur á Suðurnesjum, varpa ljósi á það sem þær eru að gera, í hvaða stjórnunarstöðu þær eru, getum við eflt þær og getum við lært af þeim? Þannig að aðallega erum við að efla konur og eiga góðan félagsskap.“

Hvernig er staða kvenna í atvinnulífinu á Suðurnesjum?

„Miðað við það sem við erum búnar að gera frá því í fyrra þegar við byrjuðum tuttugu konur að þá erum við orðnar sjötíu konur í félaginu í dag. Þetta segir okkur að það var þörf fyrir svona félagsskap á Suðurnesjum. Svo erum við að vinna að rannsóknarverkefni hér á Suðurnesjum til að mæla stöðu kvenna á Suðurnesjum. Hvar eru þær og hvað starfa þær við, svo við getum aðlagað okkar þjónustu að þeirra þörfum.“

Þörf á að stækka tengslanetið

Miðað við að þið séuð orðnar 70 í félaginu segir okkur að staða kvenna í atvinnulífinu á Suðurnesjum sé nokkuð góð?

„Já. Við teljum stöðuna góða en það er þörf fyrir því að efla tengslanetið og að setja konur á Suðurnesjum í sviðsljósið.“

Þurfið þið í dag að standa í baráttu til að vera metin til jafns við karla?

„Því miður, já. Það er staðreynd og rannsóknir hafa sýnt fram á launamismun. Það eru færri tækifæri fyrir konur.“

Komin á þrettán markaði og stækkar um 20% á ári

Það eru ekki mjög mörg ár síðan Víkurfréttur útnefndu Fidu sem mann ársins á Suðurnesjum eftir að hafa sýnt frammistöðu í stofnun frumkvöðlafyrirtækis. Nú er það svo að langflest frumkvöðlafyrirtæki lifa ekki en hvernig er staðan hjá henni?

„Við lifðum það af og erum ennþá á lífi. Staðan er góð og við erum að vaxa og höfum verið að vaxa tekjulega séð um 20% á milli ára. Við erum komin með vörurnar okkar á þrettán markaði og 70% af tekjum okkar koma erlendis frá. Þetta er hugmynd sem kviknaði hjá Keili og á mælikvarða sprotafyrirtækja á Suðurnesjum erum við nokkuð stór. Þetta er mikil vinna og þrautseigja. Þetta gerist ekki bara af sjálfum sér. Við erum mjög ánægð með árangurinn sem er kominn.“

Ef þú segir okkur í stuttu máli hvað þið eruð að gera?

„Fyrirtækið heitir GeoSilica og við erum að nýta steinefni sem falla til hjá jarðvarmavirkjunum til að framleiða fæðubótarefni. Þetta er í vökvaformi til inntöku í 300 ml. flöskum. Við mælum með að taka inn matskeið á dag, þannig að ein flaska dugar í mánuð. Í hverjum skammti er ráðlagður dagskammtur af mismunandi steinefnum. Við erum einnig með mismunandi áherslur; hár, húð og neglur, vöðvar og taugar, hugur og orka. Ég mæli með því að fólk skoði vörurnar okkar á GeoSilica.is. Þetta er fyrir alla og það er mælt með að við tökum inn með mat steinefni og vítamín til að efla líkamann. Í stressi og álagi töpum við steinefnum og því nauðsynlegt að bæta þeim við, því líkaminn framleiðir ekki steinefni.“