Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Félagslífið blómstrar ef allir taka þátt
Laugardagur 19. október 2013 kl. 10:29

Félagslífið blómstrar ef allir taka þátt

Arnór Svansson formaður NFS í viðtali

Arnór Svansson er nýr formaður Nemendafélags Fjölbrautaskóla Suðurnesja. Hann er 19 ára gamall Keflvíkingur sem stundar nám á Viðskipta- og hagfræðibraut. Arnór tók við stjórnartaumunum af Ísaki Erni Kristinssyni síðasta vor en áður hafði Arnór verið meðlimur í skemmtinefnd og framkvæmdarstjóri NFS. Blaðamaður heyrði hljóðið í Arnóri og spurði hann hvað væri á dagskránni hjá FS-ingum þessa dagana.
„Núna er allt á fullu hjá okkur en undankeppnin okkar fyrir söngkeppni framhaldsskólanna, Hljóðneminn, fer fram í byrjun nóvember. Þar koma fram flottir og upprennandi söngvarar úr FS og hver veit nema þar sé að finna næsta óskabarn þjóðarinnar,“ segir Arnór.

Formaðurinn hefur í nógu að snúast en nýlega var nemendafélagið að hefja samstarf við 88 Húsið. Þar er NFS með skrifstofuaðstöðu og fullan aðgang að húsnæðinu. „Það er fullt af hugmyndum komið inn á borð til okkar og erum við á fullu að vinna í því að skipuleggja og framkvæma.“
Arnór hefur háleitar hugmyndir sem hann langar að framkvæma meðan hann er formaður NFS.
„Það sem mig langar að ná að gera sem formaður NFS er að fá öll ungmenni hér á Suðurnesjum til að vera virkari og mun opnari fyrir félagslífi. „Mér finnst persónulega ungmenni ósköp gagnrýnin á nemendafélagið í dag og frekar feimið við að stíga út úr þægindahring sínum. En til þess að félagslífið geti blómstrað þurfa allir að taka þátt, hjálpa til og þora að taka skrefið“ segir formaðurinn.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Arnór segist vera með frábært fólk með sér í stjórn og hann segist handviss um að stjórnin eigi eftir að gera vel til þess að félagsmenn geti átt gott skólaár. Hann segir að alltaf sé verið að beturumbæta og stækka félagið en það taki allt sinn tíma. Hann vonar að þeir nemendur sem komi í FS taki þátt í félagslífinu af krafti og nýti hæfileika sína í eitthvað uppbyggilegt. „Að vera í nemendafélaginu og vinna í kringum það er mjög gefandi og mæli ég eindregið með því að aðrir taki þátt.“ sagði Arnór Svansson formaður NFS að lokum.