Félag harmonikuunnenda spilar í Kirkjuvogskirkju
Menningardagar í Njarðvíkurprestakalli halda áfram í dag með tónleikum Félags harmonikuunnenda á Suðurnesjum kl.17 í safnaðarheimilinu suður í Höfnum.
Menningardagar í kirkjum Njarðvíkurprestkalls ganga vel og hafa margir komið í kirkjuna þessa viku og notið dagskránnar sem hún hefur haft uppá að bjóða.
Hjallatún og Gimli, leikskólarnir í hverfinu, hafa mætt með nemendur sína og Brynja Vigdís, verkefnastjóri menningardaganna, hefur tekið á móti þeim.
Síðasta mánudag var Tónlistarskóli Reykjanesbæjar með tónfund og var vel mætt að sögn Brynju Vigdísar og spiluðu ungir og upprennandi tónlistarmenn fyrir foreldra og aðra gesti.
Danshópur frá Nesvöllum dansaði inní kirkjunni á þriðjudaginn og þurfti að ýta til stólum og borðum svo hópurinn kæmist fyrir.
Kórar kirkjunnar voru með opnar kóræfingar á þriðjudaginn þar sem gestir og gangandi voru boðin velkomin til þátttöku á æfingunum.
Myndir: Kirkjuvogskirkja í Höfnum og Brynja Vigdís, verkefnastjóri menningardaga í Njarðvíkurprestakalli.