Fékk vinnu á nýrri sjónvarpsstöð
Guðfinnur verður dagskrárgerðarmaður í Miklagarði.
„Nýtti daginn í að skrifa undir ráðningarsamning við þessa gaura. Saman ætlum við og fullt af frábæru fagfólki að búa til nýtt sjónvarp. Þetta verður ævintýri!“ segir Keflvíkingurinn Guðfinnur Sigurvinsson í yfirlýsingu á Facebook síðu sinni. Eins og líklega margir vita var Guðfinnur í hópi starfsmanna RÚV sem sagt var upp undir lok síðasta árs. Hann starfaði þar sem dagskrárgerðarmaður á Rás 2.
Getur loksins talað um þetta
Víkurfréttur höfðu samband við Guðfinn, sem var að vonum himinlifandi með þessa nýju áskorun. „Ég get loksins talað um þetta, þetta er búið að vera í pípunum í dálítinn tíma. Ég mun starfa þarna sem dagskrárgerðarmaður í sjónvarpi og byrja á nýrri stöð sem heitir Mikligarður.“ Hann segir að fjallað verði um vörur og þjónustu og þættir dægurmálatengdir. En það muni skýra sig dálítið betur þegar þar að kemur. „Við erum að fara algjörlega nýjar leiðir. Þetta verður t.a.m. ekki línuleg dagskrá eins og fólk þekkir. Hún verður meira svona fljótandi,“ segir Guðfinnur.
Töluvert ólíkt RÚV
Þá segir hann að útsendingar verði mikið hugsaðar fyrir vefinn og snjallsíma. Fólk geti sótt dagskrána þegar því hentar. „Svo er ég í hugmyndavinnu með annars konar þáttagerð sem ég get ekki gefið meira upp um að sinni. Þetta er dálítið ólíkt því sem ég hef fengist við áður en mjög spennandi að vera með í að byggja upp sjónvarpsstöð frá grunni. Svo er þetta líka töluvert ólíkt umhverfinu hjá þar sem ég kom úr hjá RÚV, þar sem hlutirnir hafa verið í föstum skorðum síðan 1930 og 1966,“ segir Guðfinnur hlæjandi og segist jafnframt gríðarlega spenntur að takast á við þessa áskorun og þetta nýja verkefni.
Stofnendur ánægðir að fá Guðfinn
Víkurfréttir höfðu einnig samband við Sigmar Vilhjámsson, einn af stofnendum sjónvarpsstöðvanna sem fara í loftið í mars. „Við erum búnir að vera í viðræðum við Guffa síðan á milli jóla og nýárs og erum í skýjunum með að ná að sannfæra hann um að við séum spennandi kostur. Við erum að fara að búa til dægurmálasjónvarp sem er eins og eitt langt morgunsjónvarp. Það byggir á umfjöllun um dægurmál sem snúa að vörum og þjónustu, segir Sigmar og nefnir til samanburðar þátt Rachel Ray, sem einhverjir kannast líklega við frá Skjá 1.
„Okkur langar að setja í gang miðil sem fjallar um venjulega hluti og venjulegt fólk. Við ætlum ekki að tækla stjórnmálaumræðu og dægurþras. Það verður heiður himinn og blóm í haga hjá okkur,“ segir Sigmar að lokum.
VF/Olga Björt