Fékk viðurkenningu við útskrift úr HR
Ungur Keflvíkingur, Vilhjálmur Maroni Atlason, fékk viðurkenningu Viðskiptaráðs Íslands fyrir framúrskarandi námsárangur.
Ungur Keflvíkingur, Vilhjálmur Maron Atlason, fékk viðurkenningu Viðskiptaráðs Íslands fyrir framúrskarandi námsárangur í grunnnámi í viðskiptadeild Háskólans í Reykjavík. Skólinn brautskráði 202 kandídata við hátíðalega athöfn í Eldborgarsal Hörpu sl. laugardag. Frosti Ólafsson, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs Íslands, afhenti viðurkenninguna.
Útskriftarnemendur sem luku grunnprófi voru 141 talsins. Flestir luku námi frá tækni- og verkfræðideild að þessu sinni eða 76. Næst flestir útskrifuðust frá tölvunarfræðideild eða 32. Þá lauk 61 nemandi meistara- eða doktorsnámi, 20 nemar luku meistaranámi frá lagadeild og 20 sömuleiðis frá tækni- og verkfræðideild.
Í dag er Háskólinn í Reykjavík stærsti tækniháskóli landsins og útskrifar tvo þriðju þeirra sem ljúka háskólanámi í tæknigreinum, helming þeirra sem ljúka námi í viðskiptafræði og þriðjung allra lögfræðinga. HR er jafnframt eini háskólinn á Íslandi sem hefur gildar alþjóðlegar vottanir á námsbrautum.