Fékk tónlistina beint í æð í Keflavík
Sævar Jóhannsson, tónskáld og píanisti, kemur úr mikill tónlistarfjölskyldu úr Keflavík og á því ekki langt að sækja áhugann og tenginguna við tónlistina. „Pabbi minn, Jóhann Smári Sævarsson, er óperusöngvari, Sigurður Sævarsson, frændi minn, er tónskáld og tónlistarskólastjóri og frænka mín, Sigrún Sævarsdóttir-Griffiths, er á kafi í tónlist í Englandi og rekur sitt eigið tónlistarfyrirtæki (MetamorPhonics) auk þess sem amma mín, Ragnheiður Skúladóttir, starfaði sem píanóleikari og kennari í 50 ár,“ segir Sævar þegar Víkurfréttir biðja hann um að segja aðeins frá hver hann er. „Þau vildu samt helst að ég yrði bankamaður eða fengist við eitthvað annað en tónlist,“ sagði hann og glotti.
Sævar fór í Tónlistarskólann í Keflavík, var m.a. í stórhljómsveitinni hjá Karen Sturlaugsson; „sem var alveg æðislegt, geggjaðir tímar“. Síðan var hann í ýmsum hljómsveitum, tók þátt í Músiktilraunum eitt ári og var þá í tveimur hljómsveitum sem báðar fengu viðurkenningu (annað sætið og hljómsveit fólksins). Síðan lá leiðin í Listaháskóla Íslands þar sem Sævar lærði tónsmíðar. „Ég hef oft vaðið í hlutina og prófað ýmislegt, m.a. samið fyrir dansverk, stuttmyndir í samstarfi við nemendur í kvikmyndaskóla Íslands og síðan fékk ég þetta leikhúsverkefni 2019 – Mutter Courage sem Marta Nordal leikstýrði.“
Samdi tónlist fyrir Skugga-Svein sem Leikfélag Akureyrar sýnir eftir áramót
Sævar starfar sem tónlistarkennari í Suðurnesjabæ þar sem hann kennir á píanó auk þess sem hann sinnir eigin sköpun og verkefnum sem bjóðast í leikhúsum og kvikmyndum. Hann var að leggja lokahönd á tónlistina í leikverkinu Skugga-Sveinn sem Leikfélag Akureyrar er að setja á svið í janúar (frumsýning 14. janúar). „Þetta er ekki beint söngleikur en það er mikið af músík og sönglögum í verkinu,“ útskýrir Sævar sem hefur nýtt síðustu fjóra, fimm mánuðina til að semja tónlistina fyrir leikverkið. „Það sem gerir tónlistarsköpun flókna fyrir leikhús er að stundum fæðast hugmyndir á æfingum, uppi á sviði sem ég þarf að bregðast við, bæta þá við eða breyta einhverju – „Getum við haft músík hérna eða breytt þessu lagi?“ eru spurningar sem ég heyri stundum og þarf þá að bregðast við og koma með breytingar fyrir næstu æfingu,“ segir Sævar og hlær við. Þetta er mjög lifandi format.
Það sem Sævari finnst mest spennandi við tónlistina og sköpun hennar er að vinna með öðrum og þá ólíku tónlistarfólki og öðruvísi listgreinum heldur en hann er sjálfur í og skaut því síðan að, að hann væri einnig að vinna að tónlist fyrir heimildarmynd hjá Önnu Hildi.
Listamaðurinn S.hel/Sævar Jóhannsson
Sævar hefur gefið út þrjár plötur undir listamannsnafninu S.hel og er núna að gefa út fjórðu plötuna þar sem Sony kemur til með að sjá um dreifingu á plötunni. Þetta er fyrsta platan sem hann gefur út undir eigin nafni. Platan mun bera heitið „Whenever You’re Ready“ og kjarni hennar eru orðin „Seigla, Kulnun, Hvíld“ og fjallar platan því í rauninni um þreytu og hvíld – en markmiðið er einnig að skapa hlýlega þægilega tónlist sem vonandi veitir hlustendum einhverja hugarró.
„Þetta er nýklassík, Ambient-tónlist í svipuðum geira og Ólafur Arnalds hefur verið að gefa út en einnig kvikmyndaleg eins og Max Richter og Hans Zimmer. Lífræn píanó- og strengjatónlist sem heldur upp á leikgleðina og ófullkomleikann,“ útskýrir Sævar þegar ég spyr hann út í tónlistina hans.
Hvernig kemst maður í samstarf við Sony?
„Þú þarft náttúrlega fyrst og fremst að vinna í sjálfum þér, skapa áhugaverða og einlæga tónlist sem örvar þig, ekki gera tónlistina sem þú heldur að fólk vilji heyra – en það er bara einn hluti af því, síðan þarf maður að vera duglegur að koma sér á framfæri, spotta tækifærin og mynda tengsl. Ég sótti áhugavert málþing þar sem Atli Örvarsson, kvikmyndatónskáld, og Annette Gentz, þýskur umboðsmaður, töluðum um að þessum bransa er hægt að líkja við röð veggja með fullt af dyrum og þú ert að reyna að opna þær og komast sem lengst. Þú getur ekki þvingað neinar dyr upp en þú getur komið þér fyrir í röðinni fyrir utan þær („align yourself to the possibilities“). Þetta er langhlaup en það er nauðsynlegt að líta vel í kringum sig, vera stöðugt að kynna sig og koma auga á mögulegt samstarfsfólk, fólk sem er á sömu braut og með sömu hugsjón og þú.“
Íslensk tónlist vekur áhuga erlendis
Sævar finnur fyrir því að tónlist frá Íslandi sé eftirsótt erlendis. Erlendum aðilum í tónlistinni finnst spennandi hlutir vera að gerast hér og mikil gróska og gerjun eiga sér stað. „Ein kenningin sem Sævar heyrði er að sökum hversu lítið Ísland sé og nálægðin mikil þá ertu allt í öllu í þinni sköpun og þeim þáttum sem snúa að því að koma þér á framfæri og flytja tónlist fyrir áhorfendur. Erlendis er þetta flóknara ferli sem gerir tónlistarfólki erfiðara að koma sér og sinni tónlist á framfæri. Jaðarsenan og frelsið er mikið hérna á Íslandi, fólk er óhrætt við að prófa mismunandi hluti.“
Sumarfrí á dagskránni næsta sumar
Þegar Sævar var spurður hvað annað væri á döfinni á næsta ári, kváði hann við og sagði að gott sumarfrí væri á dagskránni. „Annars er ég komin langleiðina með að semja efni fyrir næstu plötu, ha...ha“.