Fékk Molotov kokteil í bakið fyrir framan Alþingi
Vilhjálmur Árnason varð fyrir sprengju mótmælenda í búsáhaldabyltingunni og sá félaga sína liggja kalda eftir grjótkast mótmælenda. Hann var þá starfandi lögreglumaður á Suðurnesjum í sérstökum aðgerðahóp í óeirðaþjálfun. Vilhjálmur segir frá þessari reynslu í viðtali við hlaðvarpið Góðar sögur.
Hópnum var ætlað að vernda Alþingi og ruddi veginn fyrir sérsveitina þegar þurfti að beita táragasi og slökkva elda sem mótmælendur höfðu kveikt. „Þá fékk maður Molotov kokteil í bakið. Ég var að drepast í bakinu í marga mánuði eftir það,“ segir Vilhjálmur og bætir við. „Svo komu þarna gangstéttarhellurnar og félagar mínir rotuðust og kjálkabrotnuðu í kringum mann,“ Vilhjámur minnist þess að álag hafi aukist í starfi hans sem lögreglumanns á þessum tíma en um leið lækkuðu launin vegna niðurskurðar.
Áfengislausi Villi hafði hugsjón fyrir kaupmanninn á horninu
Í viðtalinu viðurkennir Vilhjálmur einnig að hafa eiginlega aldrei haft trú á fjölmiðlum. Verandi þingmaður utan höfðurborgarsvæðisins og ekki alltaf með stóru orðin, þá fái hann minni tíma í fjölmiðlum. „Ég hef alveg íhugað það að taka fastar til orða eða koma með einhver umdeild mál. Mesta fjölmiðlaumfjöllun sem ég hef fengið var þegar ég lagði fram áfengisfrumvarpið.“ Vilhjálmur segist hafa orðið flutningamaður þess frumvarps vegna hugsjónar. Sem landsbyggðarþingmaður þá fannst honum að þetta gæti skipt miklu máli fyrir byggðirnar og kaupmanninn á horninu. „Þetta snerist aldrei um Bónus eða Hagkaup. Bónus selur ekki einu sinni sígarettur og einu sinni víst að þau myndu selja áfengi. Mér var bara alveg sama. Ég var bara að hugsa um það væri ekki verið að nota skattpeningana mína, sem hef aldrei drukkið áfengi, í það að flytja áfengi frítt og halda uppi áfengisverslun út á landi þegar þess þarf ekki,“ en að mati Vilhjálms snerist umræðan innan þingsins um pólitík og tilfinningar fremur en praktík þegar kom að frumvarpinu. Hann var m.a. uppnefndur Áfengis-Villi og fólk forðaðist jafnvel að styðja hann í prófkjöri vegna þess að hann kom fram með þetta mál.
Í viðtalinu fer Vilhjálmur um víðan völl og ræðir m.a. erfiðleikana í lögreglustarfinu og á Alþingi.