Mannlíf

Fékk Mokka andann í uppeldinu
Guðmunda með Gylfa syni sínum, hin börnin hennar voru fjarverandi þegar VF kom við. VF-myndir/hilmarbragi.
Laugardagur 29. ágúst 2015 kl. 07:00

Fékk Mokka andann í uppeldinu

-segir Guðmunda Sigurðardóttir á Stefnumóti, nýju kaffihúsi og veitingastað á þekktasta götuhorni Keflavíkur

„Þetta er svakalega skemmtilegt og við erum mjög ánægð með mótttökurnar,“ segir Guðmunda Sigurðardóttir, eigandi Stefnumóts, nýs kaffihúss og veitingastaðar á einu þekktasta götuhorni Keflavíkur.

Á þessu horni var í tugi ára verslunin Hljómval og þar á undan hljómtækjaverslun Víkurbæjar sem var í eigu Árna Samúelssonar núverandi bíókóngs og fjölskyldu.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Plássið hafði staðið autt í nokkurn tíma eftir bankahrun og Guðmunda segir að hún hafi séð að þetta hafi verið kjörinn staður fyrir kaffihús og veitingastað. „Ég fékk kaffihúsamenningu í æð þegar ég var lítil en það var fastur liður hjá móður minni að fara á Mokka kaffi í Reykjavík. Þar andaði maður að sér myndlistarmenningunni þegar maður dvaldi þar löngum stundum með mömmu. Það má því segja að ég sé að hluta til alinn upp á kaffihúsi. Þegar ég varð eldri þá kom þetta aftur upp hjá mér og nú nokkru síðar lét ég drauminn verða að veruleika,“ segir Guðmunda en hún er fædd og uppalin í bítlabænum Keflavík og átti heima lengst af á Háteignum.

Fjölskyldan stendur vaktina

Hún hafði haft annað nafn í huga sem tengist bítlabænum og Hljómum en stökk á Stefnumót þegar það dúkkaði upp óvænt. Guðmunda segist þó mjög ánægð með Magga Kjartans á staurnum beint fyrir utan staðinn (sem var tekið í notkun á Ljósanótt 2014) þó það geti verið lýjandi ef hann er spilaður oft sama daginn. Með henni í rekstrinum eru börnin hennar á fullu, þau Gylfi Þór, Selma Kristín og Eyþór Elí Ólafsbörn. Fjölskyldan hefur staðið vaktina sem er löng á svona stað. Það þarf að opna snemma og það má ekki loka fyrr en seint. „Þetta byrjaði með miklum látum. Við opnuðum 1. febrúar  en svo dalaði síðla vetrar en rauk upp aftur með ferðamönnunum í sumar. Þeir hafa verið duglegir að koma við opnun staðarins kl. 9 og það hefur verið vinsælt hjá þeim að fá sér egg og beikon og hafragraut með epli og kanil og jafnvel bönunum. Útlendingarnir hafa verið mjög ánægðir. Svo komast gestir hér í tölvusamband og fá gott kaffi. En jú það eru líka fastagestir héðan úr bæjarfélaginu, margir skemmtilegir en við höfum líka fengið nokkuð af starfsmannahópum í heimsókn. Við stækkuðum nýlega staðinn hér inn eftir þar sem hjónin í Hljómval stóðu við framköllunarvélina,“ segir hressa rauðhærða veitingakonan.

Vill sjá gömlu kallana

Hún segist sjá fyrir sér stærri hóp fastagesta og vill sjá gömlu kallana í bænum koma við á morgnana í kaffi og kruðerí. Einnig sé hún með stóran skjá þar sem hægt er að fylgjast t.d. með enska boltanum. Trúbator hefur einnig haldið uppi fjöri á staðnum reglulega við miklar vinsældir. „Þá höfum við  líka aðeins verið að sýna myndir frá Suðurnesjum og útlendingar eru mjög ánægðir með það. Við viljum gera meira af því. Gylfi sonur minn er í þeirri deild og það eigum við eftir að þróa enn betur. Það hafa komið útlendingar að máli við okkur og sagst ætla að koma aftur til Íslands og vilja skoða Reykjanesið betur. Margir segjast hafa stoppað of stutt hér á svæðinu.“

Guðmunda segir að matseðillinn sé með hinum ýmsu réttum, m.a. súpu dagsins, kjúkling og pasta, samlokum og fleiru. Vinsælast hafi klúbbsamloka staðarins verið sem og kjúklingasalatið. Á stefnuskránni er að bæta við meiru matarkyns á matseðilinn en á honum er einnig úrval kaffidrykkja, amerískar pönnukökur, ljúffengar tertur og aðrar kökur. Sem sagt; eitthvað fyrir alla. Og hún leggur áherslu á að öllum líði vel þegar þeir koma inn á staðinn. Húsgögnin á staðnum eru í bland borð og stólar og síðan mjúkir stólar og sófar og það kemur mjög vel út. Í framtíðarhugmyndum er gert ráð fyrir að setja borð og stóla fyrir utan staðinn og vonandi gangi það upp fyrr en síðar.
 

Fjölgun staða við Hafnargötu gott fyrir alla

Eins og á Mokka hafa verið myndlistarsýningar á Stefnumóti og á Ljósanótt verða tvær nýjar. „Við erum að undirbúa Ljósanótt og verðum tilbúin í stærstu helgi ársins á Suðurnesjum þegar hún gengur í garð,“ segir Guðmunda og bætir því við í framhaldinu að nú þegar séu komnir margir fastagestir. Á stuttum tíma hefur kaffihúsum og veitingastöðum fjölgað í og við Hafnargötu og Guðmunda segir að það sé gott að kaffihúsa- og veitingastaðaflóran sé að stækka. Allir við Hafnargötuna og nágrenni græði á því.

Guðmunda er bjartsýn á framhaldið og er með ýmsar nýjungar í farvatninu. Hún hefur aðeins verið spurð út í opnunartímann en sumir hafa viljað sjá hann lengri. „Við höfum haft opið 9 til 20 í sumar en í vetur lengjum við tímann og verðum 9-22 virka daga en níu til tvö um helgar. Vonandi verður því vel tekið,“ sagði hressa veitingakonan.

Staðurinn var stækkaður í sumar og er mjög rúmgóður og hlýlegur.

Einn vinsælasti smárétturinn, klúbbsamloka Stefnumóts.