Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Fékk frosin íslensk ýsuflök í jólagjöf
Mánudagur 28. desember 2015 kl. 09:25

Fékk frosin íslensk ýsuflök í jólagjöf

„Ég held ég hafi aldrei verið eins hissa og meyr þegar ég fékk frosin íslensk ýsuflök í jólagjöf jólin 1987,“ segir Ingigerður Sæmundsdóttir sem þá var skiptinemi í Bandaríkjunum. Hún hlustar í dag mikið á jólatónlist, er heimakær og á mikið af góðum jóladiskum.

Jólabíómyndin sem kemur þér í skapið?
Ég er í jólaskapi allan desember og geri það sem ég geri þegar ég get. Stundum er ég sein að kaupa jólagjafir eða skrifa jólakort en það hefst allt á endanum. Það er líka allt í lagi þó jólakortin nái ekki fyrir jól. Þau skila sér fyrir rest.

Það eru fá ár síðan ég fór sérstaklega að horfa á jólamyndir. En núna held ég virkilega upp á tvær og horfi á þær á aðventunni. Þær eru Love Actually og gamla góða Christmas Vacation. Mig dreymir um að skreyta húsið mitt að utan einhver jólin eins og í myndinni.

Sendir þú jólakort eða hefur Facebook tekið yfir?
Ég held enn í þá hefð að senda jólakort og finnst dásamlegt að fá góða kveðju frá ættingjum og vinum sem hugsa til mín og minna yfir hátíðarnar. Ég sendi ýmist kort með ljósmynd eða kaupi kort af félagasamtökum og fæ enn kort en þeim fer fækkandi og finnst mér það miður.

Ertu vanaföst um jólin, eitthvað sem þú gerir alltaf um hátíðarnar?
Jólin og aðventan hafa yfirleitt verið notalegur tími og á lífsins göngu hef ég reynt að njóta þessa tíma með þeim sem standa mér næst. Ég held í ýmsar hefðir en er ekki mjög fastheldin heldur opin fyrir breytingum. Ég held að stundum geti hefðir verið óþægilegar og hamlandi. Það er gott að geta boðið fjölskylduvini sæti við matarborðið á aðfangadagskvöld.

Þegar börnin voru lítil þá var oft mikil tilhlökkun til jólanna og ýmsar hefðir urðu óvart til. Ég fór  t.d. margar ferðir í skógræktina Hamrahlíð við Úlfarsfell að ná í lifandi grenitré rétt fyrir jól. Mikill metnaður var lagður í að tréð væri sem hæst og oft var heilmikill karakter í trjánum. Fyrir nokkrum árum fjárfesti ég í gervitré en langar hver jól í lifandi tré, læt það kannski eftir mér í ár. Jólatréð fór aldrei upp fyrr en á Þorláksmessu en nú fer það upp miklu fyrr en ég er líka fljót að pakka öllu niður á þrettándanum.

Ég hef alltaf bakað um hver jól, en sortunum fer fækkandi. I fyrra bakaði ég smákökurnar sem móðir mín bakaði alltaf en hún var mjög fastheldin á hefðir. Í dag erum við sonurinn og ömmustrákurinn helst að spá í piparkökuhús. Við eigum kannski eftir að mastera í því einn daginn en við erum búin að skreyta og græja eitt hús.

Ég nýt þess að eiga stund með sjálfri mér á aðventunni, skrifa jólakort, hlusta á jólalög og hugsa til þeirra með hlýhug sem hafa á einhverjum tímapunkti verið samferða mér  í lífinu. Ég opna engin jólakort fyrr en á Þorláksmessu, þá hlusta ég á Bubba í útvarpinu og opna kortin.

Ég hlusta mikið á jólatónlist á aðventunni þar sem ég er mjög heimakær og á mikið af góðum jóladiskum. Já ég er enn með græjur og geisladiska. Mér finnst tilheyra jólunum að sækja það sem kirkjan hefur að bjóða. Fallega tónlist, hugvekju og gott samfélag. Jólatónleikar eru ómissandi á aðventunni en það er mjög mikið framboð af tónleikum hér í Reykjanesbæ. Heimsókn í kirkjugarðinn er hluti af hefðum til að kveikja á jólaljósum ástvina.

Eftirminnilegasta jólagjöf sem þú hefur fengið?
Ég held ég hafi aldrei verið eins hissa og meyr þegar ég fékk frosin íslensk ýsuflök í jólagjöf jólin 1987.  Þá var ég skiptinemi í Sleepy Eye, MN. Amerískir vinir  mínir og nágrannar i Sleepy Eye  höfðu mikið fyrir því að fá þessi flök og voru svo spennt að gefa mér á jólunum. Gleði þeirra gladdi mig mikið og fiskurinn var ótrúlega góður. Þetta var eina ýsumáltíðin sem ég fékk á meðan dvöl minni stóð. Við héldum að sjálfsögðu veislu og suðum ýsuna á jóladag og borðuðum með kartöflum og smjöri.

Er eitthvað eftirminnilegt í huga þér frá yngri árum þínum á jólum?
Æskujólin eru í minningunni notaleg og hefðbundin. Maturinn góður, mamma í eldhúsinu, barnaefni í sjónvarpinu, aftansöngur í útvarpinu, jólin hringd inn, ilmurinn, tréð, fáir pakkar, bók frá ömmu. Tilhlökkun að hitta móðurfólkið á jóladag og föðurfólkið annan í jólum. Miðnæturmessa í Ytri Njarðvíkurkirkju á aðfangadagskvöld þar sem ég spilaði heims um ból á Trompet undir orgelleik og fjöldasöng.Útivist á annan í jólum og við höldum enn í þá hefð.

Hvað er í matinn á aðfangadag?
Hamborgarhryggur eins og var á æskuheimilinu en meðlætið er Waldorfsalat, rósakál, perur, kartöflustrá og brúnaðar kartöflur. Ég er alltaf með ís í eftirrétt. Máltíðin er einföld og helsta áskorunin er kjötsósan sem klikkar aldrei.

Hvenær eru jólin komin fyrir þér?
Ég fæ enn sælutilfinningu þegar klukkurnar í útvarpinu hringja inn jólin á aðfangadag og allir sem eru staddir í húsinu faðmast og óska hvert öðru gleðilegra jóla. Síðan ómar messusöngur og jólaguðspjallið í útvarpinu á meðan við borðum hátíðarmatinn, þá eru jólin komin.

Hefur þú verið eða gætir þú hugsað þér að vera erlendis um jólin?
Ég hef verið með fjölskyldunni á Kanaríeyjum yfir jól og áramót og það var dásamlegt frí. Við áttum okkar jólastund á jóladag með hátíðarmat og litlum jólagjöfum og það var það eina sem minnti á jólahátíðina.

Ég gæti alveg hugsað mér að vera á skíðum um eða yfir jólin t.d. í ítölsku Ölpunum. Þangað hef ég komið og langar mikið aftur. Það er frí sem ég gæti hugsanlega dregið son minn, uppkomnar dætur mínar og fjölskyldur þeirra með. Ég held ég færi ekki ein í frí um jólin, þá vil ég frekar vera heima í eldhúsinu og hafa allt fólkið mitt í kringum mig.

Hvernig brástu við þegar þú komst að leyndarmálinu um jólasveininn?
Ég trúi enn á jólasveininn og þekki nokkra. En verð döpur þegar hann gleymir að færa leikskólabörnum glaðning. Langar stundum að taka í hnakkadrambið á honum, það er hægt að gleðja með smáu.

Áttu þér uppáhalds jólaskraut?
Mér þykir mjög vænt um jólaóróa sem ég á. Þeir voru keyptir til að minnast sérstakra ára eða tímabila.  Ég á líka uppáhaldsskraut á jólatréð sem hefur fylgt mér í 26 ár eða frá því ég flutti að heiman. Skrautið og jólakúlurnar á jólatrénu er úr öllum áttum. Ég fengi seint verðlaun fyrir hreinan stíl en kannski persónulegan.

Hvernig verð þú jóladegi?
Alla mína æsku og æsku barna minna hittist fjölskyldan á jóladag í Heiðartúni í Garði hjá Ingu ömmu og Ögmundi afa. Eftir að þau féllu frá og fjölskyldan stækkaði færðist boðið á milli móðursystkina minna. Nú er jólaboð Heiðartúnsfjölskyldunnar á þriðja í jólum.  

Ég fer í Njarðvíkurkirkjugarðinn að leiði móður minnar um morguninn. Syng í messu kl.14 með  kirkjukór Keflavíkursóknar og síðan ætla ég að  njóta dagsins með fólkinu mínu. Ég verð með jólaboð á jóladag, býð í hangikjöt og vonast til að gestirnir mæti með fromage og heimatilbúin ís í eftirrétt. Um kvöldið kíki ég í bók með malt og appelsín í annarri og Nóa konfekt í hinni. Þetta eru jólin mín.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024