Fékk frábærar móttökur en skammaður fyrir möndlukökuna
-Kökulist opnar nýjan morgunverðarstað á Fitjum
Það eru nú liðin rúm þrjú ár frá því að bakarinn Jón Rúnar Arilíusson tók við rekstrinum í gamla Valgeirsbakaríi að Hólagötu 17 í Njarðvík. Fyrirtækinu Kökulist hefur verið vel tekið af bæjarbúum sem og öðrum alveg frá opnun og nú á næstu dögum mun þriðja bakarí Kökulistar opna á Fitjum í Reykjanesbæ. Jón er gríðarlega þakklátur fyrir viðtökurnar síðustu árin og er hæstánægður með Suðurnesjamenn.
„Þegar ég keypti þetta var stærsta áhyggjuefnið það hvernig fólk myndi taka okkur. Suðurnesjamenn eru stórkostlegt fólk. Það hafa tugir manna komið til mín og boðið mig velkominn og óskað mér velfarnaðar. Þegar ég opnaði komu hingað meira að segja konur með blóm til mín. Þetta skiptir öllu máli. Ég tek bara ofan og þakka fyrir mig,“ segir Jón en hann hefur rekið bakarí í Firðinum í Hafnarfirði í 22 ár og segist ekki hafa átt í erfiðleikum með að ákveða Reykjanesbæ sem næsta skref fyrirtækisins.
„Mér fannst ég á tímabili vera fastur á byrjunarreit en þá var ég bara með bakarí inni í Firði. Ég þekkti Valla bakara (Valgeir Þorláksson) og son hans Ása og sameiginlegur kollegi okkar Ása benti mér á þetta. Ég vissi allt um Valgeirsbakarí og þegar við settumst að borðinu og komumst að samkomulagi ákvað ég að stökkva á þetta. Miðdepill Reykjanesbæjar er náttúrlega bara hérna á planinu.“
Kökugerðarmaður í kokkalandsliðinu
Jón hefur haft dálæti á bakstri frá því hann var lítill pjakkur í Breiðholtinu í Reykjavík en það skemmtilegasta sem hann gerði þá var að baka fyrir föður sinn og félaga hans á einum fimmtudegi í mánuði, þegar ekkert sjónvarp var í boði og karlarnir spiluðu saman „Bridge“. Eftir að hafa stundað bóklegt nám í menntaskóla í eitt ár áttaði Jón sig á því að námið væri ekki fyrir hann og færði sig þá yfir í baksturinn. Í kjölfarið flutti hann til Danmerkur, menntaði sig sem kökugerðarmann og starfaði til að mynda í mörg ár með kokkalandsliðinu þar sem hann sá um eftirrétti og annað slíkt. Enn þann dag í dag er það skemmtilegasta sem Jón gerir að baka.
„Ég opnaði fyrsta bakaríið mitt árið 1997. Tíminn hefur bara flogið í burtu. Mér finnst ennþá alveg ótrúlega gaman að mæta í vinnuna og það er gríðarlega mikilvægt,“ segir Jón og bætir því við að enginn dagur í bakaríinu sé eins.
Kransakökur klárar fyrir fermingarveislur.
Hvar er Valli?
Þegar kaupa átti 45 ára gamalt fjölskyldufyrirtæki ákvað Jón að stíga varlega til jarðar og fara rólega af stað með breytingar. „Við byrjuðum svo á því prófa að breyta möndlukökunum. Við tókum möndludropana úr og settum möndlumassa í staðinn en þá fengum við bara skammir í hattinn frá viðskiptunum, þetta væru sko ekki gömlu möndlukökurnar hans Valla. Sonur minn gaf mér í jólagjöf barnabókina „Hvar er Valli?“, því þetta heyrði maður á hverjum degi,“ segir Jón kíminn. „En ég hef reynt að vera skynsamur.“
Súrdeigsbrauð og snittur
Í rúman áratug hefur Kökulist sérhæft sig í súrdeigsbrauði og eru brauðin hvað vinsælust hjá viðskiptavinunum. Fyrirtækið er einnig með veisluþjónustu en Jón hafði, áður en hann opnaði bakaríin, unnið á veitingastöðum og í veisluþjónustum. Kökulist býr yfir stórum kúnnahóp sem treystir þeim fyrir veislunum sínum og er þar margt í boði. „Við bjóðum upp á allt sem kallast kaka eða terta. Svo erum við með snittur og tapas-rétti. Það vinsælasta eru kjúklingaspjótin okkar, snitturnar, kransakökurnar og terturnar. Við hlustum á óskir fólks, tökum mið af því á hvaða tíma veislan er, hlutfalli milli barna og fullorðinna og útbúum tilboð út frá því,“ segir Jón.
Snitturnar og kjúklingaspjótin eru vinsæl í veisluþjónustunni.
Nýr morgunverðarstaður á Fitjum
Nýja bakaríið á Fitjum verður frábrugðið hinum tveimur. Þar verður í boði morgunmatur frá klukkan sex á morgnanna á góðu verði, egg og beikon, baunir og pylsur svo dæmi séu tekin. „Það er geggjað að geta farið í sundlaugina á laugardagsmorgni og svo yfir í góðan morgunmat. Þú færð ekki betri byrjun á deginum en það. Ég hef tröllatrú á þessu,“ segir Jón en stefnt er að því að opna staðinn formlega á föstudag.
Móttökurnar hafa farið fram úr björtustu vonum Jóns sem þakkar bæjarbúum fyrir hlýhuginn. „Þetta er meira en bara vinna, þetta er svolítil ástríða. Mér finnst þetta ótrúlega gaman og ég legg mig tvö hundruð prósent fram við þetta. Suðurnesjafólk opnar fangið og tekur á móti nýju fólki og styður það. Það er frábært að vera hérna.“
-Sólborg Guðbrands
Ekki er langt síðan að kaffihús var opnað inn af bakaríinu. Þar er hægt að setjast niður og njóta veitinga.