Fékk forsíðuna á afmæliskökuna
Unnar Ernir Valtýsson er á sjöunda ári en veit nú þegar hvað hann ætlar að verða þegar hann vex úr grasi. ,,Krossaramaður og vera jafn góður og Gylfi,” sagði Unnar kokhraustur en þegar hann átti 6 ára afmæli síðastliðið sumar vildi hann ekkert annað en forsíðu Víkurfrétta á afmælistertuna.
Þann 24. ágúst síðastliðinn kom 34. tölublað Víkurfrétta út og þar á forsíðunni sést Íslandsmeistarinn í Motocrossi, Gylfi Freyr Guðmundsson, í háloftafimleikum á Sólbrekkubraut. Myndin fangaði athygli Unnars og vildi hann fá myndina umsvifalaust á afmælistertuna sína en Unnar á einmitt afmæli 24. ágúst.
Unnar er mikill áhugamaður um motocross og var ekki lengi til svara þegar hann var inntur eftir því af hverju hann hefði viljað hafa þessa mynd á kökunni. ,,Af því að hún er svo flott,” sagði Unnar. Síðasta sumar fór Unnar svo í heimsókn á Sólbrekkubraut þar sem Motocrossmenn voru við æfingar, þá fékk Unnar að sitja með einum Crosskappanum á keppnishjóli og gleðin í andliti Unnars leyndi sér ekki.
Hverjir bökuðu kökuna fyrir þig?
Mamma og Raggi bakari gerði myndina úr Víkurfréttum.
Hverjir eru bestir ?
Gylfi Freyr, Valdi, Einar, Mikki Frisk og Ricky Carmichael.
Ekki fer á milli mála hvaða íþrótt þessi ungi snáði á eftir að stunda í framtíðinni og hver veit nema hann verði á forsíðu Víkurfrétta fljúgandi um motocrossbrautir landsins í leit að Íslandsmeistaratitli. Það er þá kannski ráð fyrir ríkjandi Íslandsmeistara, Gylfa Frey, að fara að vara sig. Unnar sækir fast að!
Mynd 1: Afmælisterta Unnars
Mynd2: Unnar við Sólbrekkubraut í sumar
Mynd 3: Forsíða Víkurfrétta sem heillaði Unnar