Bílakjarninn hekla
Bílakjarninn hekla

Mannlíf

Fékk fermingarfötin frá bræðrum sínum
Feðgarnir Jón Arnar Birgisson og Birgir Bragason. Birgir fermdist árið 1987 en Jón Arnar fermist nú í vor.
Mánudagur 8. apríl 2019 kl. 06:00

Fékk fermingarfötin frá bræðrum sínum

Nýtnin í fyrirrúmi. Birgir í fermingarfötunum sem tveir bræður hans fermdust í áður.

„Sterkasta minning mín frá þessum degi er þegar ég las úr Nýja testamentinu í kirkjunni á fermingardaginn og öll pennasettin sem ég fékk í fermingargjöf. Við fórum í fermingarfræðslu í Kirkjulundi, einu sinni í viku í nokkrar vikur. Svo man ég að við héldum veisluna heima og mamma var á haus að baka alls kyns tertur. Við þurftum að læra trúarjátninguna, boðorðin tíu og Faðir vorið og að sjálfsögðu kann ég þetta tvennt enn utan að. Maður lærði mikið um kristna trú sem maður vissi ekki áður. Það helsta sem hefur svo fylgt manni i gegnum árin er siðfræðin. Fermingarfötin sem ég klæddist í erfði ég af báðum bræðrum mínum sem þeir fermdust í á undan mér,“ segir Birgir.

Sonur hans, Jón Arnar Birgisson, fermist nú í vor.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Af hverju ert þú að fermast?
„Ég er að staðfesta skírnina, vil vera kristinnar trúar og langar að tilheyra þessari kirkju.
Þegar ég var yngri var ég alltaf í sunnudagaskóla þannig að ég vissi svona eitthvað um kristna trú en er búin að vera að læra mjög margt í vetur. Við erum líka búin að kynnast því hvernig lífið er annars staðar eins og í dag þegar kristniboði kom hingað og sagði okkur frá því sem þeir eru að gera í útlöndum. Alls konar kynningar frá öðrum löndum þar sem kristindómurinn hefur haft áhrif á líf fólks. Margt sem maður vissi ekki og margt mjög merkilegt. Ég er duglegur að mæta í messu á sunnudagsmorgnum, mér finnst bara fínt að mæta í messu. Við eigum að mæta í tíu messur og svo er fermingarfræðsla annan hvern miðvikudag. Mér finnst trúin mín hafa aukist. Fyrst skildi ég ekki allt sem verið var að kenna okkur en ég skil allt miklu betur í dag.“

Hlakkar þú til þess að fermast?
„Já, ég hlakka mikið til að fermast. Það er búið að ákveða hvar veislan mín verður og hvað verður í matinn. Ég á eftir að muna mestmegnis allt sem ég hef lært í fermingarundirbúningnum. Trúarjátningin er eitt af því sem ég þarf að kunna á fermingardaginn.“