Fékk 10 í öllum textíláföngum í FS og er á leið í draumaskólann í Ameríku
Sandgerðingurinn Kara Petra Aradóttir útskrifaðist í vor frá Fjölbrautaskóla Suðurnesja. Við útskriftina fékk hún verðlaun fyrir framúrskarandi árangur í sálfræði og í félagsfræði. Þá er hún fyrsti nemandinn við FS sem fær 10 í öllum áföngum í textíl. „Mér brá svakalega þegar ég heyrði þetta – en ég blómstra alveg þar, finnst mér,“ segir Kara Petra í samtali við Víkurfréttir og bætir við: „Ef þú ert með góðar einkunnir þá opnast svo margir möguleikar á frekara námi.“
Óttaðist að fara í fatasaum
Þegar hún hóf framhaldsnám var hún ákveðin í að ætla að verða næringarfræðingur. Kara Petra fór á opið hús í Fjölbrautaskóla Suðurnesja áður en hún byrjaði í framhaldsskóla og þá sá hún textílstofurnar í FS og heillaðist. Hún segist þó hafa óttast það að fara í tíma í fatasaum og var hrædd um að það myndi trufla námið í næringarfræðinni. Á öðru árinu í FS fór hún af fullum krafti í textílnámið og þá var ekki aftur snúið með þeim árangri að hún útskrifaðist með allt upp á tíu!
Framhaldsnámið á veirutímum
Kara Petra kláraði námið í FS á þremur árum og segir að það sé gaman að læra. Hana hafi langað í fleiri áfanga í skólanum en ekki komið þeim fyrir. Þá truflaði kórónuveirufaraldurinn námsárin.
„Auðvitað gat stundum verið fínt að vera bara ein heima að læra en það vantaði allt félagslífið og að hitta kennarana. Ég tók lífeðlisfræði í fjarnámi og kennarinn vissi ekki fyrst að ég væri í áfanganum, þannig að það var ekkert gaman að vera í fjarnámi. Fyrstu þrjár annirnar mínar voru í fjarnámi en svo batnaði ástandið.“
Kara Petra er á leiðinni til Bandaríkjanna í áframhaldandi nám. Hún fékk náms- og fótboltastyrk í gegnum Soccer Education, sem er umboðsskrifstofa fyrir háskólanema sem vilja hefja nám í Bandaríkjunum.
Komst inn í draumaskólann
„Ég sótti um hjúkrun og fatahönnun og fékk boð frá nokkrum skólum. Ég fékk svo umboðsmanninn minn til að senda umsókn á draumaskólann minn og tvo aðra. Niðurstaðan var að draumaskólinn minn var sá eini sem svaraði og ég var að fá inni í Academy of ART University í San Francisco í Kaliforníu.“
Skólavistin hefst strax eftir verslunarmannahelgi og um er að ræða fjögurra ára nám en hún mun koma heim tvisvar á ári í tvo mánuði.
Samhliða náminu í mun Kara Petra spila í háskólaboltanum í knattspyrnu og ferðast víða um Bandaríkin, hún mun m.a. fara til Havaí. „Það er framundan mikið ævintýri, ég var ekki að búast við þessu fyrir tveimur árum síðan.“
Elskar hópinn í Grindavík
Kara Petra hefur verið í fótbolta allt sitt líf. Hún lék í yngri flokkum með Reyni Sandgerði. Svo var yngri boltinn sameinaður Víði Garði og síðar í RKV þegar Keflavík bættist í hópinn. Þegar Kara Petra var í þriðja flokki byrjaði hún að spila með meistaraflokki Keflavíkur þar sem hún var í fjögur ár. Þá ákvað hún að færa sig yfir til Grindavíkur. Hún spilar sem djúpur miðjumaður. „Ég á nokkrar frænkur í Grindavík og elska hópinn þar og þá er bróðir minn líka í Grindavík.“
Spurð að því hvert hún stefni í náminu segist Kara Petra það ekki alveg ljóst. Hún flökti á milli fatahönnunar, búningahönnunar og textílhönnunar. „Mér finnst gaman að búa til efnin og mér finnst líka gaman að hanna og sauma. Ég held að framtíðin hafi með þetta allt að gera,“ segir Kara Petra Aradóttir að endingu.