Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Föstudagur 20. nóvember 1998 kl. 23:04

FEIMINN OG VENJULEGUR STRÁKUR

Viðtal við Davíð Guðbrandsson sem leikur eitt aðalhlutverkið í Máttarstólpum Þjóðfélagsins sem sýnt er um þessar mundir í FrumleikhúsinuHann hefur vakið athygli leikhúsgesta sem séð hafa Máttarstólpa þjóðfélagsins eftir Ibsen í Frumleikhúsinu að undanförnu enda sýnir hann þar óvenjulegan þroska í leik sínum á aðalsöguhetjunni, Karstenbernik, þrátt fyrir ungan aldur. Davíð Guðbrandsson er á nítjánda aldursári og starfar utan leikhússins við það að flytja húsgögn varnarliðsmanna og fjölskyldna þeirra. Það er erfitt að sjá samlíkingu með Karstenbernik, aðalsöguhetju Ibsens, og Davíð þegar blaðamaður hittir hann á heimili sínu eitt eftirmiðdegi. Hann er hæglátur og liggur ekki hátt rómur enda svarar hann spurningu blaðamans um eðlisleika sína á þann veg að hann sé „feiminn og ósköp venjulegur strákur“ og sér hann ekki ástæðu til að orðlengja það frekar. Þetta er sjötta uppfærslan sem Davíð tekur þátt í með Leikfélaginu en fyrstu kynni hans af leiklistinni voru í Stígvélaða kettinum þegar hann var 15 ára. Af hverju ert þú að þessu? „Ég veit það ekki, þetta er svakalegt áhugamál“, segir Davíð og laumar því að að umsóknareyðublöð fyrir Leiklistarskóla Íslands liggi frammi á borði. „Ég ætla að sækja um næsta haust“, segir hann og brosir. „Þetta er það eina sem mig langar til að læra í augnablikinu, nú ef ég kemst ekki inn þá er bara að reyna aftur, og aftur“. Eru einhver leiklistargen í fjölskyldunni? „Pabbi lék einhver ár með leikfélaginu hér þegar hann var ungur, mig minnir að hann hafi leikið skrattann í Gullna hliðinu”, svarar Davíð en faðir hans er Guðbrandur Einarsson formaður Verslunarmannafélags Suðurnesja. Áttu eitthvað sameiginlegt með persónunni sem þú leikur á sviði Frumleikhússins þessa dagana? „Ég býst við því að allir hafi eitthvað á samviskunni sem kemur engum öðrum við - hafa það ekki allir?” spyr Davíð sem þó segist vera feginn að komast út úr Karstenbernik þegar sýningu er lokið. „Persónuleikinn situr stundum í manni en það var þó verst þegar ég lék Axel í Gaukshreiðrinu en þá hélt ég áfram að stama eftir að sýningum var lokið“. En hvað skyldi hann gera til þess að komast inn í hlutverkið? „Ég byrja á því að læra textann og skilja hann. Finna hvað liggur á bak við hvert orð. Mér finnst þægilegt að nota einhvern hlut til þess að komast frá sjálfum mér. Í sýningunni er ég með hárið sleikt aftur og lít út fyrir að vera eldri og mér finnst gott að nota það. Það virðist alltaf eitthvað hrökkva í gang”, segir Davíð hægverkslega. Þegar hann er á sviði segist hann reyna að hugsa ekki sem Davíð. „Ef þú nærð að gleyma þér þá gengur allt vel. Það er sama hvernig þér líður og hvort þú sért illa fyrirkallaður eða ekki, því öllum tilfinningum fylgir kraftur og ég reyni að virkja hann“, segir Davíð og bætir því við að einhverjir töfrar liggi í loftinu á frumsýningu. Hvað einkennir góðan leikara? „Það fer eftir hlutverkinu, það geta allir leikið að minnsta kosti eitt hlutverk. Við erum öll í mismunandi hlutverkum dags daglega og er ég, Davíð, engin undantekning þar á.” Síðasta sýningarhelgi er nú framundan og hvað skyldi þá taka við? „Ætli ég fari ekki bara að vinna og slæpast og gera ekki neitt þangað til að maður fer að leika aftur“, segir Davíð með glettnisglampa í augum. Viðtal: Dagný Gísladóttir
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024