Fegurð í 20 ár
Fegurðarsamkeppni Suðurnesja fagnar 20 ára afmæli á þessu ári og í tilefni afmælisins segir Lovísa Aðalheiður Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri Fegurðarsamkeppni Suðurnesja, að keppnin muni fara fram með nokkuð breyttu sniði í ár.
„Við munum reyna að hafa keppnina í meiri takt við það sem er að gerast í dag eins og reyna að skapa það umhverfi sem t.d. er á tískusýningum,” sagði Lovísa í samtali við Víkurfréttir. Þá má m.a. nefna að á keppniskvöldinu sjálfu verða birtar myndir frá eldri fegurðarsamkeppnum.
Meðal dómara í fegurðarsamkeppni Suðurnesja verður Unnur Birna Vilhjálmsdóttir, Alheimsfegurðardrottning árið 2005 en keppnin sjálf fer fram í Stapa þann 11. mars n.k og að þessu sinni eru það 10 gullfallegar stúlkur sem keppa um titilinn Ungfrú Suðurnes árið 2006. Nánar um fegurðarsamkeppni Suðurnesja í næsta tölublaði Víkurfrétta.
VF-myndir/Héðinn Eiríksson