Fátt jólalegra en að skella sér í leikhús á aðventunni
Leikfélag Keflavíkur frumsýnir um helgina Jólasögu Charles Dickens í Frumleikhúsinu við Vesturbraut í Keflavík. Víkurfréttir kíktu á æfingu í vikunni og tóku tvo leikara úr Jólasögu, þau Sölva sem leikur sjálfan Scrooge og dóttur hans Herdísi Birtu sem leikur Tomma litla, tali.
Hvað fékk ykkur til að ganga til liðs við LK og leika í þessari sýningu?
„Þessi söngleikur hefur verið í miklu uppáhaldi hjá mér frá því ég var barn,“ segir Sölvi „og svo var eitthvað sem kveikti í mér þegar ég sá auglýsinguna þar sem verið var að óska eftir leikurum. Við fórum svona að tala um þetta í fjölskyldunni sem varð til þess að við Herdís Birta skelltum okkur í prufur“.
Hefur eitthvað komið ykkur á óvart?
„Mér fannst skrýtið hvað það þarf að æfa mikið til að stilla saman lýsinguna, hljóðið og leikritið,“ segir Herdís Birta „en ég kom sjálfri mér á óvart hvað ég var fljót að læra textana,“ segir hún brosandi.
Sölvi segist hafa búist við mikilli vinnu við leikritið þar sem hann hafi áður tekið þátt í uppfærslum á leikritum annars staðar á landinu. „Engin sýning er þó eins og enginn leikstjóri eins svo það er alltaf eitthvað sem kemur þægilega á óvart“.
Hvernig er að vinna undir stjórn Jonna leikstjóra?
„Mér finnst það mjög gott. Hann er mjög skipulagður og með skap sem fær fólk til að hlusta á það sem hann er að segja. Þetta er stór og flókin uppsetning sem krefst þess að unnið sé af aga og með góðu skipulagi. Hann er greinilega þaulvanur og veit hvað hann vill fá út úr þessu. Það er ekki hægt að leyna því að maður er svolítið montinn af því að fá að vinna með svona fagmanni,“ segir Sölvi og Herdís Birta kinkar kolli og er sammála.
Er eitthvað líkt með Sölva og Scrooge?
„Nei, nei, nei“, segir Herdís Birta hlæjandi.
„Ég hef alltaf verið svo mikið jólabarn og í okkar fjölskyldu eru jólin besti tími ársins þar sem allir taka þátt í að gera þau hátíðleg,“ segir Sölvi. „Scrooge er samt mjög áhugaverður karakter sem fer í gegnum hin ýmsu áföll og erfiðleika sem verða síðan til þess að hann verður betri manneskja en hann var. Þannig held ég að lífið sé hjá okkur flestum en bara misjafnt hvort fólk lærir af þeim mistökum sem það gerir og tekst að brjótast í gegnum erfiðleika og standa sterkara eftir“.
Hvernig leggst frumsýningin í ykkur?
„Ég hlakka til að frumsýna en er smá kvíðin,“ segir Herdís Birta. „Ég hlakka samt til að tala og syngja á sviðinu fyrir fullt af fólki“.
Sölvi segir að auðvitað sé smá fiðringur í maganum en æfingar hafa gengið vel og þetta er frábær hópur sem stendur að sýningunni, bæði þeir sem eru að leika og eru að halda utan um allt.
Hvaða aldurshópur á erindi á þessa sýningu?
„Þetta er tvímælalaust sýning fyrir alla aldurshópa,“ segja feðginin. „Það er bæði góður boðskapur og húmor í sýningunni. Svo er hún líka spennandi og dulmögnuð á köflum“.
Mér skilst að fleiri fjölskyldumeðlimir komi við sögu LK. Segðu okkur aðeins frá því Sölvi?
„Já, það er nánast öll fjölskyldan sem tekur þátt í þessari sýningu á einn eða annan hátt. Herdís Birta mín 9 ára leikur Tomma litla og Arnór Sindri elsti sonur minn 18 ára sér um hljóðið sem skipar stóran sess í söngleiknum. Hann hefur einnig tekið þátt í mörgum sýningum hjá LK og séð um unglingastarfið þar. Ásdís eiginkona mín hefur svo saumað búning á mig og Tomma litla og búið til leikmuni svo ég tali nú ekki um að lesa textann á móti mér þegar ég var að læra rullurnar sem eru ófáar. Þetta er allt búið að vera mjög skemmtilegt jólaverkefni hjá fjölskyldunni“.
Hvernig er hópurinn og hvernig hafa æfingar gengið?
„Mér finnst hópurinn skemmtilegur og hress,“ segir Herdís Birta „og æfingarnar hafa gengið vel en hafa verið svolítið langar svo maður er stundum þreyttur þegar maður þarf að vakna í skólann á morgnana“.
Sölvi bætir við að hópurinn sé búinn að vera frábær, bæði innan og utan sviðs. Það er búið að vera svo gaman að kynnast öllu þessu fólki og ekki síst krökkunum sem eru búin að standa sig eins og hetjur.
Að lokum, hvað viljið þið segja við fólk sem les þetta viðtal?
„Við viljum bara hvetja fólk til að skella sér á þessa metnaðarfullu sýningu. Það þekkja margir söguna en leikritið hefur ekki verið sett upp svo mörgum sinnum á sviði hér á landi og því um að gera að nýta sér tækifærið. Það er fátt jólalegra en að skella sér í leikhús á aðventunni, sérstaklega þegar um er að ræða Jólasögu Charles Dickens. Það ættu allir að komast í gott jólaskap“.