Fatlaðir og ófatlaðir vinna saman – List án Landamæra
Reykjanesbær og nágrannasveitarfélög taka nú í fyrsta sinn þátt í hátíðinni List án landamæra þar sem fatlaðir og ófatlaðir vinna saman að ýmsum listtengdum verkefnum.
Eftirfarandi er dagskrá hátíðarinnar í sveitarfélögunum:
Reykjanesbær:
23. apríl kl. 13.00: Bæjarstjóri Reykjanesbæjar setur hátíðina með formlegum hætti í Frumleikhúsinu, Vesturbraut 17. Sett verður á svið sýningin Sumardagurinn fyrsti sem er samsett dagskrá með leik, söng og dansi. Þar verður farið stuttlega í sögu sumardagsins fyrsta, ljóð og sögur lesnar og flutt ný og gömul lög sem hæfa tilefninu og allt gert með leikrænni tjáningu. Um leikstjórn sér Kristlaug María Sigurðardóttir.
23. apríl kl. 14.00: Sýningin Glerborgir opnar í Bíósal Duushúsa. Hér er á ferðinni samsýning listafólks undir stjórn myndlistarmannsins Guðmundar R. Lúðvíkssonar þar sem unnið er í frjálsum verkum og sett upp áhugaverð sýning á ímynduðu þorpi og flöskumyndlist í anda Picasso. Við þetta tilefni mun Helgi Þór Einarsson jafnframt flytja ljóðaslamm sem hann orti á meðan vinnsluferli Glerborganna stóð. Sýningin stendur til sunnudagsins 26. apríl. Opið frá kl. 13.00 - 17.00 og aðgangur ókeypis.
23. apríl kl. 15.00: Samsýning í Svarta pakkhúsinu, Hafnargötu 2. Lára María Ingimundardóttir, Valur Freyr Ástuson og Ástvaldur Ragnar Bjarnason sýna verk sín. Sýningin stendur til 30. Apríl og er opin á virkum dögum frá kl. 16.00 - 19.00 og um helgina 25. og 26. frá kl. 13.00 - 17.00.
27. - 30. apríl: Hæfingarstöðin, Hafnargötu 90, verður með opið hús dagana 27. - 30. apríl kl. 13.00-15.00 þar sem sýnd verða listaverk þjónustunotenda.
Sveitarfélagið Garður:
Síðasti vetrardagur 22. apríl.
Bæjarskrifstofu, Sunnubraut 4, kl. 14.00 opnar sýning Gefnarborgar, Gerðaskóla, Tónlistarskólans og Heiðarholts; Gaman saman. Flutt verður tröpputónlist, leikskólabörn syngja og nemendur flytja frumsamin ljóð. Sýningin verður opin frá kl. 09.00-15.30 virka daga til 7. maí.
Grindavík
Sumardaginn fyrsta 23. apríl
Sundlaug Grindavíkur kl. 11.30, myndlistarsýning barna frá sérdeild grunnskólans. Tónlistaratriði frá leikskólunum Laut og Króki.
Grunnskólinn kl. 17.00, Möguleikhúsið sýnir leikritið Alli-Nalli.
Sandgerði
Sumardaginn fyrsta 23. apríl
Listatorg, Vitatorgi. Listasýning grunnskólabarna úr Sandgerði. Sýning á ýmsum verkum nemenda. Stúlkur frá tónlistarskólanum spila og stelpur úr dans- og leiklistarhóp sýna dans úr söngleiknum Chicago.