Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Farin að kunna vel við Hafnfirðinga
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
miðvikudaginn 21. desember 2022 kl. 11:00

Farin að kunna vel við Hafnfirðinga

Keflvíkingurinn Júlía Jörgensen er aðstoðarskólameistari Flensborgarskólans í Hafnarfirði

„Ég er mjög ánægð með að hafa fengið formlega ráðningu, þetta er skemmtilegt starf og góður vinnustaður og ég er meira að segja farin að kunna vel við þessa Hafnfirðinga. Það er verst hvað þeir eru allir handboltasjúkir, þar er ég alls ekki á heimavelli,“ segir Keflvíkingurinn Júlía Jörgensen en hún var nýlega ráðinn aðstoðar skólameistari Flensborgarskólans í Hafnarfirði.

Hvernig og hvenær lá leið Suðurnesjakonunnar í Flensborgarskólann?

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Ég hóf störf við Flensborgarskólann árið 2016. Þá hafði ég verið kennari við hinn dásamlega Myllubakkaskóla í tíu ár og langaði að breyta til og stíga aðeins út fyrir þægindarammann. Flensborg auglýsti eftir félagsgreinakennara og þar sem ég er með BA próf í stjórnmálafræði fannst mér það spennandi og ákvað að sækja um. Ég hef kennt m.a. félagsfræði, stjórnmálafræði, fjölmiðlafræði og vísindaleg vinnubrögð ásamt því  að hafa  umsjón með nýnemum í áfanga sem við köllum Hámark. Ég tók  að mér fagstjórn í félagsvísindum eftir nokkur ár í starfi og endaði svo á því að leysa af sem aðstoðarskólameistari frá því í ágúst 2020. Afleysingin átti að vara í 6 mánuði en dróst á langinn en það var svo í lok nóvember sem ég fékk formlega ráðningu eftir nokkurra vikna umsóknarferli.

Hver eru helstu verkefni aðstoðarskólameistara Flensborgarskólans?

Verkefnin eru ansi mörg og fjölbreytt. Það er í mörg horn að líta í framhaldsskólunum og mikið um að vera flesta daga. Ég vinn í miklu samstarfi við skólameistara alla daga og er staðgengill hans. Verkefnin eru fjölmörg allt frá því að sinna nemendamálum og því sem upp kemur í daglegum störfum yfir í að sinna innra mati, mætingarmálum, starfsmannamálum, áætlana- og skýrslugerð, teymisstörfum og allt þar á milli. Svo fæ ég líka aðeins að kenna en ég held utan um útskriftarefnin á síðustu önninni sinni og styð við þau á lokasprettinum í námi. Það er alltaf skemmtilegasti hlutinn við starfið, að styðja við og efla nemendur í því sem þau eru að fást við.

Skólinn á sér langa sögu, hverjar eru helstu áherslur í dag?

Já, skólinn á ansi langa sögu sem skólastofnun og er með elstu starfandi skólum á Íslandi þó skólastarfið hafi breyst í gegnum tíðina. Hann var upphaflega stofnaður sem barnaskóli árið 1877 en var breytt í „alþýðu- og gagnfræðaskóla“ fimm árum síðar, árið 1882, og aldur skólans er miðaður við það. Við fögnuðum 140 ára afmæli skólans núna í haust en hann hefur verið fjölbrautaskóli síðan árið 1975. Skólinn er áfangaskóli en nýnemar eru hins vegar í bekkjarkerfi á fyrsta námsárinu sínu áður en þeir fara út í áfangakerfið. Bekkjarkerfið er skólaþróunarverkefni sem snýr að því að halda enn betur utan um nýnemana, gæta að vellíðan þeirra, efla námsmenningu og auka skuldbindingu þeirra í námi. Við tókum fyrstu skrefin í þessu verkefni á meðan heimsfaraldur gekk yfir og við vildum eiga möguleika á því að kenna nýnemum í húsi ef aftur kæmi til fjöldatakmarka. Verkefnið hefur svo þróast og er núna tilraunaverkefni hjá okkur og þykir spennandi nálgun. Við bjóðum upp á stúdentspróf á hefðbundnum bóknámsbrautum auk þess sem nemendur geta valið sérsvið. Íþróttaafrekssviðið er vinsælt en um 200 nemendur hjá okkur eru íþróttaafreksmenn og margir hverjir sterkir í sinni grein hvort sem það er sund, fótbolti, handbolti eða aðrar greinar. Við erum líka forystuskóli um heilsueflandi framhaldsskóla og í íþróttabænum Hafnarfirði svo það er kannski ekki skrýtið að íþróttaafrekssviðið sé vinsælt.

Fjölskyldan saman komin, Júlía, Helgi og börnin Ottó og Þórunn Elfa.

Hvað með Keflvíkinginn Júlíu og fjölskyldu hennar, býr hún ekki enn í heimabænum og gerir og græjar eitthvað suður með sjó?

Jú, svo sannarlega er ég enn í Keflavík og líklega þyrfti mikið til að ná mér þaðan. Það er svo gott að vera heima og er viðurkenni það að þegar ég renni inn í bæinn í lok vinnudags kemur stundum pínu hlýja í hjartað yfir því að vera komin aftur í bæinn minn. Mér finnst svo gott að vera í Keflavík þó ég gæti nú eflaust þrifist annarsstaðar líka. Hér er fólkið mitt auðvitað, foreldrar mínir, hluti tengdafjölskyldunnar og dásamlegu vinkonur mínar. Við höfum stöku sinnum rætt flutning, ég og Helgi maðurinn minn. Hann vinnur í Grindavík svo við erum bæði í keyrslu sem er kannski ekki endilega ákjósanlegt. Allar hugmyndir um flutning hafa þó fallið um sjálfa sig. Við keyptum fyrr á árinu hús foreldra minna sem við erum svo ánægð með svo líklega yrði erfitt að fara þaðan. Krakkarnir eru í skólum í Keflavík, FS og Heiðarskóla, og bæði á fullu í fótboltanum svo allir eru sáttir í sínu.“