Farðaði einn hrút úti í móa
- Eddan kom skemmtilega á óvart
Kristín Júlla Kristjánsdóttir, förðunarmeistari úr Garði, hlaut Edduna á dögunum fyrir gervi í kvikmyndinni Hrútum. Þetta er annað árið í röð sem Kristín hlýtur þessi virtu verðlaun. Í fyrra hlaut hún þau fyrir gervi í kvikmyndinni Vonarstræti. Við afhendingu verðlaunanna hélt Kristín ræðu þar sem hún meðal annars þakkaði Bárðdælingum kærlega fyrir samstarfið en kvikmyndin var tekin upp í Bárðardal. Þá tileinkaði hún sonum sínum, þeim Skarphéðni, Júlíusi og Víglundi Edduna. Í viðtali við Víkurfréttir kvaðst Kristín vera mjög þakklát fyrir að hafa hlotið Edduna enda sé það mikil viðurkenning. „Ég bjóst ekki við því að hljóta Edduna í ár en veit þó að ég átti hana alveg skilið fyrir gott starf. Satt best að segja fannst mér við þrjár sem tilnefndar vorum alveg koma jafn mikið til greina.“ Áslaug Dröfn Sigurðardóttir var tilnefnd fyrir gervi í kvikmyndinni Fúsa og Heba Þórisdóttir fyrir kvikmyndina Ant Man.
Næstu verkefni Kristínar eru gervi í stuttmynd í leikstjórn Nönnu Kristínar Magnúsdóttur. Ólafur Darri Ólafsson mun leika aðalhlutverkið í myndinni. Á dagskránni eru svo ein til tvær bíómyndir sem Kristín getur ekki sagt nánar frá að svo stöddu þar sem hún er ekki búin að undirrita samninga enn.
Kristín var orðin 35 ára þegar hún hóf nám í förðun. Áður vann hún á tannlæknastofu, sem stuðningsfulltrúi í Gerðaskóla og við ýmis störf. Kristín eignaðist sitt fyrsta barn þegar hún var 19 ára gömul. „Maðurinn minn er sjómaður og ég hélt utan um heimilið. Síðar fór mig svo að langa að breyta til og tók svo bara ákvörðun um að gera það.“ Kristín segir það ekki hafa legið beint við á þeim tíma að læra förðun heldur hafi það verið skyndiákvörðun. „Ég sá námið auglýst í blaði og ákvað bara að gera þetta. Ég er svolítið hvatvís.“ Kristín hafði alltaf haft mikla sköpunarþörf og fannst spennandi að búa til karaktera. „Svo áttaði ég mig á því að þetta væri rétti vettvangurinn. Þetta var eitthvað sem bjó inni í mér og ég vissi ekki alveg hvað væri. Mig langaði ekki að læra förðun til að búa til glamúr. Ég geri það auðvitað líka en það er ekki þar sem áhuginn liggur,“ segir Kristín sem vill helst bara vinna við bíómyndir og sjónvarpsþætti og gerir líka gervi fyrir sjónvarpsauglýsingar.
Það ferli að skapa persónur fyrir kvikmynd getur tekið langan tíma og vinnur Kristín þá í samstarfi við leikstjóra og búningahönnuði. „Ef leikstjórinn er löngu búinn að ákveða hvaða sminka starfar að kvikmynd þá byrjar fólk að kasta hugmyndum á milli allt að ári áður en tökur hefjast. Svo byrjar maður að vinna á launum um það bil mánuði áður en tökur byrja. Þá fer maður að hitta leikarana og fólk fer að vinna enn nánar saman við að búa til endanlegt útlit.“ Kristín segir starfið skiptast í tarnir og svo koma yfirleitt hlé inn á milli verkefna.
Eins og áður sagði hlaut Kristín á dögunum Edduna fyrir gervi í kvikmyndinni Hrútum. Alls hlaut kvikmyndin 11 verðlaun á Eddunni. Kvikmyndin var öll tekin upp norður í Bárðardal. Allir sem að myndinni komu dvöldu að gistiheimilinu Kiðagili í dalnum og segir Kristín það hafa verið magnað að dvelja þar. „Það hefði nú átt að koma fram hjá einhverju okkar á Eddunni að við vorum í Bárðardal þegar eldgosið hófst í Holuhrauni. Við horfðum á logana út um gluggana og það stóð allan tímann sem við vorum í dalnum. Það var því alltaf yfir okkur. Það var mikil spenna að fylgjast með fréttum, til dæmis um það hvort það myndu verða flóð. Ég og Siggi Sigurjóns töluðum mikið um það að eldgosið hafi gefið myndinni einhvern yfirnáttúrulegan kraft. Þetta var magnað tímabil og maður komst í svo nána snertingu við náttúruna.“
Ekki er hægt að ljúka viðtalinu án þess að spyrja Kristínu hvort hún hafi farðað eitthvað af sauðfénu sem lék í Hrútum. „Já, reyndar gerði ég það. Það var einn hrútur sem í myndinni fannst dauður úti í móa. Ég þurfti að setja á hann blóð og froðu í munnvikin. Froðan var vegna þess að hann átti að vera með riðu.“