Farandleikhús í Landsbankanum
Brot úr sögu banka
Afmælisár Landsbankans hófst þann 1. júlí s.l. en þá voru 120 ár frá opnun bankans í Bakarabrekku í Reykjavík, sem nú heitir Bankastræti. Afmælishátíðin hefur væntanlega ekki farið framhjá nokkrum manni enda margháttaðir viðburðir verið tengdir afmælinu um land allt í afar veglegri og fjölbreyttri dagskrá.
Í vikunni bauð Landsbankinn til leiksýningar í útibúi bankans, sem er Farandleikhús Landsbankans. Þetta er leikdagskrá í léttum dúr þar sem rakin er saga Landsbankans árin 1886-2006. Dagskráin heitir einfaldlega Brot úr sögu banka. Handritið skrifaði Felix Bergsson en leikarar voru Björgvin Franz Gíslason, Jakob Þór Einarsson og Kristjana Skúladóttir.
Fjölmargir lögðu leið sína í útibú Landsbankans í Keflavík þennan eftirmiðdag á mánudegi og nutu stórskemmtilegrar dagskrár. Eftir leiksýningu heilsaði Sproti upp á yngstu gestina en þessir vinir Sprota voru síðan kvaddir með Sprotagjöf.
Útibú Landsbankans í Keflavík á sér ekki jafnlanga sögu en engu að síður mjög skemmtilega, því starfsemin teygir sig inn fyrir dyr Kaupfélags Suðurnesja og starfaði fyrst í umboði Kaupfélagsins frá 1964 eða fyrir 42 árum síðan. Síðan tók Samvinnubankinn við sem sjálfstætt útibú frá febrúar 1965 og sameinaður við Landsbanka Íslands frá 8. apríl 1991.