Fannst lyfjaiðnaðurinn spennandi
Halldís Thoroddsen starfar sem efnaverkfræðingur hjá alþjóðlegu lyfjafyrirtæki í Stokkhólmi
Halldís Thoroddsen býr í Stokkhólmi en hún er efnaverkfræðingur að mennt og starfar hjá stóru alþjóðlegu lyfjafyrirtæki sem framleiðir lyf úr blóðplasma á sviði blóðmeinafræði, ónæmisfræði og gjörgæslu. Halldís er í stöðu þar sem hún prófar að vinna innan allra deilda fyrirtækisins og eftir 12-18 mánuði fær hún svo starf við sitt hæfi. Dagarnir eru því ansi fjölbreyttir, allt frá því að standa í framleiðslulínunni til skrifstofustarfa, en hún ferðast einnig á milli starfsstöðva fyrirtækisins víðsvegar um Evrópu. Ung ætlaði Halldís sér að verða leikkona, flugmaður eða skáld ef hún man rétt, en henni líkar þó mjög vel við þann stað sem hún er á í dag. Efst á lista hjá henni er að fara í bakpokaferðalag um Suður-Ameríku.
Hvernig líkar þér lífið í Stokkhólmi?
Mér líkar mjög vel. Ég er búin að búa hérna í rúmt ár og er farin að þekkja til helstu staða borgarinnar býsna vel. Ég bý í hverfi sem heitir Hjorthagen sem er ekki svo langt frá miðbænum og ferðast til vinnu með neðanjarðarlestinni á veturna en þegar vel viðrar þá hjóla ég. Það tekur skemmri tíma.
Hvernig kom þetta starf til?
Ég kláraði master í efnaverkfræði frá Chalmers háskóla í Gautaborg vorið 2015 og undir lok námsins kynntist ég lyfjaiðnaðnum, sem mér fannst mjög spennandi. Á sama tíma sá ég þetta starf auglýst og sótti um.
Hvað lærir maður í efnaverkfræði?
Þegar ég byrjaði hafði ég ekki hugmynd, en vissi að það var mikil stærðfræði og efnafræði svo ég ákvað að prófa. Í grunnnáminu lærir maður mest þessa algengu verkfræðikúrsa, stærðfræði, eðlis- og efnafræði. En í mastersnáminu og á lokaárinu í grunnáminu er mikil áhersla á efnaferla og hönnun þeirra, t.d. olíuframleiðsla og lyfjaframleiðsla. Þar sem Svíar eru frekar umhverfisvænir var það mikið áhersluefni þegar maður lærði um hönnun efnaferla, t.d. hvaða efni eru umhverfisvæn til notkunar, hvernig á að meðhöndla úrganginn o.s.frv.
Geturðu lýst venjulegum degi hjá þér í vinnunni? Í hverju felst starfið þitt?
Starfið felst í því að prófa að vinna innan allra deilda fyrirtækisins og svo að því loknu fæ ég stöðu við mitt hæfi. Octapharma er alþjóðlegt fyrirtæki, svo ég hef einnig ferðast mikið á milli starfsstöðvanna innan Evrópu. Enginn dagur er eins. Einn daginn er ég á framleiðslulínunni og annan daginn sinni ég venjulegum skrifstofustörfum. Svo það mætti eiginlega segja að vinnan felist mest í því að læra á fyrirtækið og vinna að þeim verkefnum sem mér er úthlutað á hverri deild.
Hvað fela „venjuleg skrifstofustörf“ í sér í þínu starfi?
Oftast eru það skýrsluskrif og úrvinnsla niðurstaða úr rannsóknum og gilding á nýjum tækjum og ferlum.
Geturðu sagt mér aðeins frá lyfjunum sem þið framleiðið úr blóðplasma? Hvernig er það gert?
Lyfin sem við framleiðum eru til dæmis til þess að hjálpa fólki með ýmsa blóð- og ónæmissjúkdóma að lifa eðlilegu lífi. Sem dæmi er einn markhópur fyrirtækisins sjúklingar með dreyrasýki. Þá vantar prótein í blóðið sem gerir það að verkum að blóðið storknar ekki þegar þeir fá sár. Fái þeir ekki það prótein getur þeim blætt út. Lyfin eru framleidd úr blóðplasma, sem er vökvahluti blóðsins. Virku efnin í lyfjunum, sem eru hin ýmsu prótein, eru aðskilin frá plasmanum með mismunandi aðskiljunar- og hreinsunartækni.
Í Stokkhólmi erum við um 760 sem vinnum hjá fyrirtækinu. En eins og ég nefndi áður þá er þetta alþjóðlegt fyrirtæki með höfuðstöðvar í Sviss, framleiðslu í Svíþjóð, Austurríki, Frakklandi, Þýskalandi og Mexíkó og svo eru söluskrifstofur út um allan heim.
Ertu að vinna mikið með öðru fólki eða mikið ein?
Ég vinn rosalega mikið með öðru fólki alls staðar að, sem er mjög gaman og fjölbreytt.
Hver er uppáhalds borgin þín?
New York og Madrid. Þar er fjölbreytilegt mannlíf og í Madrid er mjög góður matur.
Hver er draumur þinn?
Ég á mér alltaf mjög stóra ferðadrauma. Bakpokaferðalag um Suður Ameríku er númer eitt á „to-do“ listanum. Svo væri gaman að fara einhvern tímann til Filippseyja og Indlands. Svo að skoða heiminn er einn draumur, en annars vil ég ná langt í þeim verkefnum sem ég tek mér fyrir hendur bæði persónulegum og úti á atvinnumarkaðnum.
Hvað finnst þér skemmtilegast við daglegt líf í Stokkhólmi? Áttu þér uppáhalds stað?
Mér finnst alltaf gaman að fara á kaffihús og tvö af mínum uppáhalds kaffihúsum eru Choklad Koppen í Gamla Stan og Kaffeverket í Vasastan. Ég sest oft þangað á köldum vetrardögum með góða bók. Einn af uppáhalds veitingastöðunum mínum er Shanti, indverskur staður sem er bæði á Södermalm og í Vasastan.
Halldís í heimsóknargallanum í framleiðslustöð Octapharma í Þýskalandi
Íslenskir verkfræðingar í Stokkhólmi
Halldís með uppáhalds tvennuna; kanilsnúð og heitt súkkulaði