Mannlíf

Fannst lítið fjallað um Suðurnes og stofnuðu fjölmiðil
Í prentsmiðjunni Stapaprenti, sem hefur séð um umbrot og prentun Faxa síðustu tvo áratugi. F.v.: Eðvarð T. Jónsson ristjóri Faxa, Svavar Ellertsson prentsmiðjustjóri og Helgi Hólm frá Málfundafélaginu Faxa sem gefur út samnefnt blað. VF-mynd: Hilmar Bragi
Sunnudagur 21. desember 2014 kl. 14:31

Fannst lítið fjallað um Suðurnes og stofnuðu fjölmiðil

– Málfundafélagið Faxi fagnar 75 ára afmæli

Málfundafélagið Faxi var stofnað 10. október 1939 og fagnar því 75 ára afmæli um þessar mundir. Tímamótunum verða gerð ítarleg skil í jólablaði Faxa sem kemur út á morgun og verður dreift inn á öll heimili í Reykjanesbæ. Þá liggur blaðið frammi í öðrum sveitarfélögum á Suðurnesjum.
Það voru sex félagar í Keflavík sem stofnuðu Málfundafélagið Faxa en markmið með félaginu var að þjálfa félagsmenn í ræðumennsku og rökræðum. Fundir voru haldnir til skiptis á heimilum félagsmanna. Fljótlega fjölgaði félagsmönnum í tólf og þeir hafa verið tólf allar götur síðan.

Aðeins 47 félagsmenn frá upphafi

Þó félagið sé orðið þetta gamalt, þá halda félagsmenn einnig trú við félagið lengi. Á þessum 75 árum þá telja félagsmenn þó aðeins 47 félaga. Sá félagi sem hefur setið lengst í félaginu, og situr enn, er heiðursfélaginn Gunnar Sveinsson fv. kaupfélagsstjóri. Hann hefur verið Faxa-félagi í samtals 60 ár.
Helgi Hólm er einn Faxa-félaga og hann var jafnframt ritstjóri Faxa í 15 ár. Hann segir í samtali við Víkurfréttir að nú standi Málfundafélagið Faxi á nokkrum tímamótum en fjórir félagar séu að hætta, enda komir á áttræðisaldur, og tími kominn á að rýma fyrir yngri mönnum.

Stofnuðu blað til að bregðast við umræðuskorti

Málfundafélagið Faxi hafði ekki starfað lengi þegar það ákvað að stofna blaðið Faxa. Helgi segir það hafa verið vegna þess hversu mönnum þótti þá lítill fréttaflutningur af svæðinu. Þá, eins og nú, horfi stóru miðlarnir ekki langt út fyrir póstnúmerið 101. Umræðan um það sem var að gerast á svæðinu var það lítil að ráðist var í útgáfu Faxa fyrir 74 árum. Útgáfan hefur gengið í gegnum hæðir og lægðir. Oft komu allt að 10 blöðum á ári og fór niður í eitt blað en vilji er til þess nú að blöðin séu þrjú til fjögur á ári. Hér áður var Faxi seldur í lausasölu en hefur síðustu ár verið dreift án endurgjalds og byggir afkomu sína á auglýsingum.

Faxi hefur mikið söfnunargildi og er víða til innbundinn og er mikil heimild um liðna tíma inn í framtíðina. Hin síðari ár hefur Faxi fetað þá braut að gefa ákveðnum málum mikið pláss í blaðinu og þar er minnst stórra tímamóta. Þannig hefur blaðið skrifað um stórafmæli fyrirtækja og stofnana þar sem sagan er rakin í máli og myndum.

Þrjú til fjögur blöð á ári

Helgi tekur undir að útgáfa Faxa hafi oft verið mikil hugsjón, en alltaf hafi verið stefnt á að láta auglýsingar standa undir kostnaði við útgáfuna. Efni blaðsins er mikið til unnið í sjálfboðavinnu. Eðvarð T. Jónsson hefur verið ritstjóri Faxa síðustu níu ár og segir Helgi að hann hafi  getað einbeitt sér að því að skrifa Faxa og hafi unnið mikið og gott starf. Jólablað Faxa sem kemur út á morgun, föstudag, sé þó síðasta blað Eðvalds. Hann hefur mörg önnur járn í eldinum í útgáfumálum og því mun nú nýr ritstjóri taka við Faxa á nýju ári. Blaðið Faxi heyrir undir blaðstjórn sem kosin er af Málfundafélaginu Faxa og oftast hefur ritstjórinn einnig verið einn af Faxafélögum.

 

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024