Fann sína hillu í gullsmíðinni
- „Frábært fyrir dundara eins og mig,“ segir Keflvíkingurinn Rúnar Jóhannesson
Rúnar Jóhannesson hlaut á dögunum viðurkenningu fyrir sveinspróf sitt í gullsmíði en er þetta í fyrsta sinn sem gullsmiður hlýtur verðlaun frá Iðnaðarmannafélaginu í Reykjavík fyrir afburða námsárangur. Rúnar þreytti sveinspróf og útskrifaðist frá Tækniskólanum vorið 2013.
Keflvíkingurinn Rúnar sem er 34 ára hafði áður lært myndlist hérlendis og á Ítalíu og starfað sem slíkur um árabil. Hann segist nú hafa fundið sína hillu í gullsmíðinni en þar fær dundari eins og hann virkilega að njóta sín. „Í þessu fagi er þolinmæðin ofar öllu. Þarna get ég dundað mér tímunum saman,“ segir Rúnar en hann segir starfið vera afar áhugavert og í raun hafi opnast nýr heimur fyrir honum þegar hann hóf námið. Hann vissi í raun ekkert um fag gullsmiða þegar hann fékk þá hugmynd að kynna sér námið árið 2008. Rúnar fann fljótlega að námið átti vel við hann og síðar hóf hann starfsnám hjá meistaranum Kristni Sigurðssyni sem rekur verslunina Tímadjásn. Þar segist Rúnar hafa lært mikið og þá sérstaklega af viðgerðum á hinum ýmsu skartgripum.
Gæti hugsað sér að opna verslun með eigin hönnun
Starf gullsmiðsins er nokkuð fjölbreytt en margir vinna við viðgerðir eða framleiðslu á skartgripum, á meðan aðrir vinna að eigin hönnun. Rúnar segir að hann hafi örlítið fengist við hönnun og væntanlega megi eiga von á því að hönnun hans líti dagsins ljós á vormánuðum. Í framtíðinni segist hann vel geta hugsað sér að setja á laggirnar eigin verslun þar sem hans eigin hönnun yrði á boðstólum. Það verði þó að koma í ljós.
Sveinsprófið fer þannig fram að nemendur fá teikningu af grip á mánudegi sem skila skal fullunnum á föstudegi. Hópur Rúnars átti að smíða nælu og hlaut Rúnar verðlaun sín fyrir þá smíð. Hátíðin var haldin í Ráðhúsi Reykjavíkur og var það forseti Íslands sem veitti nýnemunum viðurkenningarnar. Forsetinn flutti hátíðarávarp og einnig menntamálaráðherra og iðnaðarráðherra. Jón Gnarr borgarstjóri flutti lokaávarp við athöfnina.