Fann jarðhýsi frá landnámi á loftmynd
Fornleifauppgröftur í Höfnum hefur skilað af sér merkilegum niðurstöðum.
„Tilefnið var fornleifaskráning sem var í gangi í sveitarfélaginu og ég var með loftmynd í höndunum og sá þar skála, að mér fannst. Ég tilkynnti þennan skála þáverandi bæjarstjóra, Árna Sigfússyni, sem trúði mér ekki alveg strax. Svo leiddi eitt af öðru og hann vildi láta mig staðfesta þetta, sem ég og gerði. Síðan hef ég verið þarna nánast á hverju sumri,“ segir Bjarni F. Einarsson fornleifafræðingur, sem greindi í bíósal Duushúsa frá rannsóknum sínum í Höfnum sem hófust árið 2009.
Hér sést glöggt móta fyrir jarðhýsinu á loftmynd.
Uppgröfturinn kominn vel á veg.
Oftast er um að ræða bóndabæ
Loftmyndin, lágflugsmynd í háskerpu, hafði verið tekin við góðar veðurfarsaðstæður. Aðrar myndir sem Bjarni hafði, t.d. frá hernum, sýndu ekki fram á neinn skála. „Þegar skáli finnst í fornleifarannsóknum á Íslandi eru sjálfkrafa dregnar þær ályktanir að um sé að ræða bóndabæ. Ef það er bóndabær þá verða að vera önnur hús en hann á staðnum. Þá á ég við smiðju, fjós, önnur minniháttar hús sem voru sérhönnuð fyrir ýmis konar starfsemi. Ég fann ekkert slíkt. Það eru þó þrjú önnur mannvirki í kringum skálann; jarðhýsi, brunnhús og geymsluhola,“ segir Bjarni og bætir við að allt bendi til þess að eldri hluti skálans sé byggður fyrir landnámslagið svokallaða, sem er árið 871 (+/- 2 ár). „En hversu löngu fyrir veit ég ekki. Það gæti þó ekki hafa verið mjög löngu fyrr því þá væri efnið líklega ónýtt.“
Bjarni ásamt háskólanemum í fornleifafræði.
Vinsælt viðfangsefni háskólanema
Bjarni bauð stúdentum frá Háskóla Íslands að koma í fornleifavinnu sem sjálfboðaliðar og sjálfur sá hann þeim fyrir fæði og húsnæði. Hann bjóst við svona 5-6 nemendum en það komu 14. Flestir þeirra kláruðu sitt nám í fornleifafræði í framhaldinu. Jarðhýsið, sem fannst fyrir 2-3 árum og hópurinn vann við, var af klassískri skandinavískri gerð. „Jarðhýsi eru grafin visst langt niður í jörðu til að ná niður fyrir frostið. Þau bera öll nokkurn vegin sömu merki. Hlutverk jarðhýsa, sem voru ódýr og auðveld í byggingu, áttu til að breytast þegar íveruhús (skálar) voru komin á staðinn. Þá urðu þau geymslur eða vinnustaðir og jafnvel sem ruslaholur.“
Útstöð frá Norðu-Evrópu
Tilgáta Bjarna er að jarðhýsið hafi verið útstöð frá Norður-Evrópu, hvers hlutverk var að vinna hér á landi auðlindir og flytja þær svo yfir hafið aftur, s.s fiskur, fugl, egg, sel o.s.frv. Þá fundust einnig tennur rostunga og hvala. „Svo fundu háskólanemarnir matargeymsluholu í fyrra frá Víkingaöld sem þeir vissu lengi vel ekki hvað var því slík hola hafði aldrei fundist áður á Íslandi. Þær voru vel þekktar á fornsögulegum tíma í Skandinavíu og nágrannalöndum okkar,“ segir Bjarni. Þá hafi ýmsir gripir fundist, s.s. spjót, hamar, skultull, ljósakola, vaðsteinar, búrhvalstönn og snældusnúður.
Auðlindir helsta driffjöðurin við landnám
Bjarni segir að helsta driffjöðurin í landnámi hafi verið auðlindir. „Þú ferð, þú finnur, þú nýtir og þú nemur. Landnámið íslenska er afleiðing af nýtingu landsins í einhvern tiltekinn tíma. Á grundvelli nýtingarinnar skapaðist þekking og sú þekking komst utan og fólk frétti af gæðum landsins og fluttist búferlum til Íslands. Sama gerist svo með Grænland og í kjölfarið lengra vestur.“