Fann á sér að eitthvað væri að
Mæðgurnar Guðlaug Erla og Ólavía Margrét fæddust báðar með krabbamein í augum.
Ólavía Margrét Óladóttir fæddist 30. júlí síðastliðinn. Stuttu eftir fæðingu kom í ljós að hún væri með krabbamein í augum. Móðir hennar, Guðlaug Erla Björgvinsdóttir, fæddist með sams konar krabbamein árið 1996. Slíkt krabbamein hafði ekki þekkst í fjölskyldunni áður en Guðlaug fæddist. Mæðgurnar hafa farið fjórum sinnum til Svíþjóðar til meðferðar við krabbameininu á þeim þremur mánuðum sem liðnir eru frá fæðingu Ólavíu. Guðlaug segir að í byrjun meðgöngunnar hafi enginn hugsað út í það hvort barnið gæti verið með krabbameinið.
„Svo fór ég að pæla í þessu þegar ég var komin 20 vikur. Ég fann á mér að eitthvað væri að. Þá kom í ljós að hún var með sama breytta genið og ég sem getur valdið krabbameini í auga. Þá rifjaði systir mömmu minnar upp að þegar ég fæddist var það rætt af mínum læknum að mögulegt væri að börn mín myndu fæðast með sama krabbamein. Ég fékk sjálf að taka ákvörðun um það hvort ég vildi fæða Ólavíu eftir 38 vikur eða ganga með hana fulla meðgöngu,“ segir Guðlaug. Ef Guðlaug hefði gengið með Ólavíu fulla meðgöngu hefði það getað gerst að meinið hefði verið orðið stærra og valdið meiri skaða.
Þó svo að Ólavía hafi verið með breytta genið var ekki víst að hún væri með krabbamein en það fékkst svo staðfest þegar hún var viku gömul. „Það var erfitt að fá þær fréttir en samt eitthvað sem ég bjóst við. Ég var búin að undirbúa mig undir það slæma.“ Mæðgurnar hafa farið fjórum sinnum til Svíþjóðar og hefur batinn verið vonum framar. „Krabbameinið fór úr öðru auganu eftir eina lasermeðferð. Krabbameinið í hinu auganu er búið að minnka mikið en á ekki eftir að hverfa alveg svo hún verður undir eftirliti. Hún sér því með báðum augum og það er líklegt að hún eigi eftir að sjá vel í framtíðinni. Kannski gæti hún þurft gleraugu en það er nú í lagi.“
Eins og áður sagði fæddist Guðlaug sem sama krabbamein fyrir 19 árum og fór þá til London og fékk læknishjálp. Hún missti alla sjón á öðru auga og er með skerta sjón á hinu. Hún segir skertu sjónina þó ekki há sér mikið enda þekki hún ekki annað. „Ég get gert næstum því allt nema að keyra bíl,“ segir hún og bætir við að sumt við umönnun Ólavíu litlu geri hún tvisvar sinnum eins og til dæmis að þrífa pelana til að vera alveg viss um það að þeir séu hreinir. Guðlaug fær góða hjálp frá fjölskyldunni sinni enda í nógu að snúast að fara oft til Reykjavíkur í viðtöl hjá læknum og til Svíþjóðar. „Ég er rosa heppin með fjölskylduna mína. Systir mömmu minnar eru eiginlega orðin amma Ólavíu og hjálpar okkur mikið. Svo keyrir frænka mín okkur alltaf til Reykjavíkur og ætlar með mér í næstu ferðir til Svíþjóðar.“
Töluverður kostnaður hefur fylgt veikindunum og hafa margir stutt við bakið á þeim mæðgum. Til dæmis syntu börn í sunddeild Grindavíkur maraþonsund á dögunum og söfnuðu styrkjum. Guðlaug kveðst afar þakklát öllum þeim sem hafa stutt þær. „Ég er á góðum stað núna og styrkirnir hafa komið sér vel. Ég er ótrúlega þakklát fyrir alla hjálpina. Ég veit ekki hvernig framhaldið verður en þykir líklegt að ég þurfi ekki á meiri aðstoð að halda.“
Ólavía er mikill gleðigjafi og hefur að sögn Guðlaugar verið mjög hress þrátt fyrir lasermeðferðir og krabbameinslyf. „Stundum þegar hún er í lyfjagjöf hlær hún. Hún hefur aðeins einu sinni orðið alvarlega veik og það var eftir blóðgjöf. Það er þó ekkert miðað við það sem gæti verið að gerast svo hún er mjög heppin.“