Fallegasti jólaglugginn í Draumalandi
Verslunin Kóda og Gallerý 8 fengu 2. og 3. verðlaun.
Verslunin Draumaland í Reykjaensbæ er með fallegasta jólagluggann í ár en slík viðurkenning hefur verið veitt undanfarin ár.
Verslunin Kóda þótti vera með næsta fallegasta gluggann og Gallerý 8 fékk 3. verðlaun en báðar verslanirnar eru við Hafnargötu en Draumaland er skammt frá, við Tjarnargötu.
Magnea Guðmundsdóttir, bæjarfulltrúi og formaður Umhverfis- og skipulagssviðs Reykjanesbæjar afhenti viðurkenningarnar í Duus húsum í gær. Hún sagði við þetta tækifæri að velja jólagluggann í Reykjanesbæ væri skemmtilegt verkefni. „Þeir sem standa vaktina í verslunum okkar hér í miðbæ Reykjanesbæjar gleðja okkur hin með líflegum og fallegum skreytingum. Hátíðarandi færist yfir bæinn og við njótum fallegs umhverfis á Aðventunni. Ásýnd verslana og húsa í miðbænun er einn mikilvægasti þátturinn í útliti miðbæjarins.“
Í umsögn dómnefndar segir að Draumaland hafi vakið athygli fyrir bjartan og fallegan jólaglugga. Draumaland er gamalgróin verslun í bæjarfélaginu, með mikið úrval af gjafavöru og blómum.
Verslunin Koda fékk viðurkenningu fyrir samræmt útlit skreytinga innan og utanhúss. Í versluninni Gallerý 8 þar sem íslensk hönnun er í fyrrirúmi nýtur hönnunin sín einnig vel í gluggaskreytingum.
Nefndina skipuðu bæjarfulltrúarnir Magnea Guðmundsdóttir og Björk Þorsteinsdóttir og Páll Ketilsson, ritstjóri Víkurfrétta.
Systurnar Kristín og Hildur fyrir framan gluggann í Kóda. Að neðan er Magdalena S. Þórisdóttir er ein þeirra sem standa vaktina í Gallerí 8.
Jólaglugganefndin með vinningshöfum.