Fallega upplýst jólatré lífga upp á skammdegið í Suðurnesjabæ
Tvö fallega upplýst jólatré lífga nú upp á skammdegið og prýða sinn hvorn byggðakjarnann í Suðurnesjabæ. Íbúar í Garði fjölmenntu á túnið við ráðhús Suðurnesjabæjar í Garði á fyrsta sunnudegi í aðventu þar sem jólaljósin voru kveikt kl. 17 og svo klukkustund síðar voru ljósin kveikt á trénu í Sandgerði sem stendur við íþróttamiðstöðina og skólann.
Í Garði söng barnakór undir stjórn Freydísar Kneifar, Skjóða og jólasveinar kíktu í heimsókn og glöddu börnin með leik, góðgæti og söng. Þá voru kakó og piparkökur í boði. Barnakór Sandgerðisskóla söng undir stjórn Sigurbjargar Hjálmarsdóttur og við undirleik Sigurgeirs Sigmundssonar þegar kveikt var á jólatrénu í Sandgerði. Þangað mættu einig Skjóða og jólasveinar og kakó og piparkökur voru í boði til að ylja sér á í kuldanum.
Ljósmyndari Víkurfrétta var við athöfnina í Sandgerði og tók meðfylgjandi myndir.