Falleg svunta góð viðbót við baksturinn
Rannveig Víglundsdóttir hefur komið sér vel fyrir með saumaverkstæðið Flingur í Frumkvöðlasetrinu á Ásbrú. Þar saumar hún svuntur, ungbarnasængurver og hálsklúta. Þar að auki saumar hún og merkir handklæði fyrir Fontana á Laugarvatni, Bláa lónið og Jarðböðin á Mývatni. Vörurnar hafa fengið góðar móttökur þrátt fyrir að Rannveig hafi aldrei auglýst. ,,Þetta hefur spurst út enda fáum við marga hópa til okkar hingað í Frumkvöðlasetrið, ýmist saumaklúbba eða hópa af vinnustöðum og þeir bera fögnuðinn út,“ segir Rannveig.
Dætur Rannveigar, þær Sigríður Magnea og Sólveig Albertsdætur, aðstoða mömmu sína við saumaskapinn þegar mikið liggur við. Sigríður býr á Suðurnesjum og hjálpar yfir mesta annatímann en Sólveig býr í Danmörku og verslar þar inn efnið sem Rannveig notar í ungbarnasængurverin og sendir til Íslands.
Svuntur sem minna á sparikjóla hafa notið mikilla vinsælda og segir Rannveig hugmyndina að þeim hafa kviknað í Bandaríkjunum. Efnin sem hún notar í svunturnar eru svipuð og notuð eru í bútasaum en Bandaríkin eru stundum sögð mekka bútasaumsins. Rannveig kveðst alltaf hafa haft gaman að svuntum og bakstri. ,,Falleg svunta er góð viðbót við baksturinn. Svo eru sumir sem segja að maturinn bragðist betur ef sá sem eldar hann klæðist fallegri svuntu,” segir Rannveig og brosir. Hún fer reglulega til Bandaríkjanna að versla efni í svunturnar og passar að velja efni sem ekki eru seld hér á landi.
Rannveig hefur fengið Alexöndru Tómasdóttur til liðs við sig og saman undirbúa þær nú markaðsátak til að koma svuntunum í sölu í verslunum. Nú er því verið að hanna nýjar umbúðir utan um svunturnar og lagfæra vefsíðuna. Áður var reksturinn í bílskúr við heimili Rannveigar en hefur nú verið á Ásbrú í á fimmta ár. ,,Það er mjög skemmtilegt að vera hérna innan um aðra frumkvöðla,” segir hún.
Viðtalið við Rannveigu birtist í blaðauka um Ásbrú sem fylgdi með Víkurfréttum nú í vikunni.