Fálkinn og Stjáni blái verðlaunaðir
Fálkinn og Stjáni blái reyndust hlutskarpastir í handritasamkeppni Lestrarmenningar Reykjanesbæjar en samkeppninni var m.a. ætluð til að vekja athygli barna á að skemmtilegt söguefni geti leynst allt um kring.
Fálkinn er enginn annar en Þorgrímur Þráinsson, rithöfundur og fyrrum landsliðsmaður í knattspyrnu, en bókahandritið hans „Litla rauða músin“ hlaut verðlaun ásamt bókahandriti Ingibjargar M. Möller er ber nafnið „Aragrúi.“ Dómnefnd valdi handritin af mikilli kostgæfni en hana skipuðu þau Guðni Kolbeinsson, formaður dómnefndar, Guðbjörg M. Sveinsdóttir og Svanhildur Eiríksdóttir.
Samkeppnin var öllum opin en skilyrt var að aðalsögusviðið væri Reykjanesbær og nánasta umhverfi. Alls bárust 13 handrit í samkeppnina en málfar handrita Þorgríms og Ingibjargar sem og umhverfi sagnanna þóttu vel til þess fallin að efla áhuga barna á lestri góðra bóka. Hvort um sig fengu Þorgrímur og Ingibjörg 400.000 kr. í peningaverðlaun við hátíðlega athöfn í Listasal Duus húsa í Reykjanesbæ. Að athöfn lokinn var gestum boðið að gæða sér á þessari girnilegu köku.
VF - myndir/ JBÓ, [email protected]